miðvikudagur, október 26, 2005

Kvennafrídagur, I. hluti: 1975

Ég tel sjálfan mig til femínista þótt sumir segi að ég sé orðinn karlrembulegur í seinni tíð. Jú, satt er að ég er farinn að leyfa mér ákveðna karlrembu á stundum. Kannski svona eins og kvenremburnar leyfa sér sína rembu.

Ég er alinn upp af þónokkurri kvenréttindakonu, móður minni það er að segja. Mamma söng með góðum hópi leikkvenna baráttusöngva inn á plötu og sama efni á Lækjartorgi í tilefni Kvennafrídagsins árið 1975 og svo aftur til að minnast þessa sama dags þrjátíu árum síðar nokkurn veginn á sama stað.

Plötuna Áfram stelpur kunni ég aftur á bak og áfram þegar ég var sex ára og trúlega líka þegar ég var átta, tíu og tólf. Marga textana man ég enn - enda lögin mörg góð og inntak textanna féll í góðan jarðveg ungrar sálar sem var að byrja sína skólagögnu í Austurbæjarskólanum og trúði á sanngirni og réttlæti.

Mamma söng semsé á plötunni Áfram stelpur og það er nú trúlega mest þess vegna sem hann karl faðir minn hefur nennt með mig niður í bæ að bera dýrðina augum þennan októberdag annó 1975. Gott ef pabbi fór ekki með mig á Hótel borg eftir fundinn í hnallþóru og kakó. Man þó minna eftir því, meira eftir kvennafundinum. Ég man að ég stóð uppi á handriðinu, nýorðinn sex ára, við Núllið í Bankastrætinu - og hef trúlega haldið um ljósastaur - og horfði þaðan eins og úr stúku niður á Lækjartorg þar sem fundurinn fór fram; ræðu- og söngkonur standandi í þessum hefðbundna litla fundarvagni sem um langt árabil var notaður til fundar- og hátíðarhalda út um allt land.

Og haldiði ekki að ég hafi séð mynd í Fréttablaðinu á Kvennafríðdaginn þennan síðasta, 24. okt., sem sýnir hnakkann á barni sem heldur utan um ljósastaur í Bankastrætinu og horfir niður á Lækjartorg. Og það er skilti á staurnum: KONUR - LADIES. Ég er svona 95% viss um að barnið er ég.

Kvennafrídagurinn anno 1975 markaði söguleg spor í vitund hins vestræna heims um stöðu og stöðuleysi hálfs mannkyns og að sama skapi markaði hann spor í huga og hjarta ótal karla og kvenna sem þennan merkisdag muna.

Á vef Kvennasögusafns Íslands er þetta m.a. að finna:

„ Lagið "Áfram stelpur" hljómaði í útvarpinu kl. 7 að morgni 24. október 1975. Platan „Áfram stelpur“ var ekki komin til landsins en aðstandendur höfðu fengið afrit í hendur og komið í útvarpið. Sönghópur Rauðsokka söng "Áfram stelpur" ásamt öðrum lögum á Lækjartorgi síðar um daginn og það hefur síðan verið táknrænn söngur þessa dags. [ Hér má hlusta: http://kona.bok.hi.is/Kvennasaga/Afram%20stelpur.mp3 ]

Áfram stelpur
Lag: Gunnar Edander
Texti: Dagný Kristjánsdóttir og Kristján Jónsson

Í augsýn er nú frelsi,
og fyrr það mátti vera,
ný fylkja konur liði
og frelsismerki bera.
Stundin er runnin upp.
Tökumst allar hönd í hönd
og höldum fast á málum
þó ýmsir vilji aftur á bak
en aðrir standa í stað,
tökum við aldrei undir það.
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori, get og vil.
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori get og vil. “

2 Comments:

At mánudagur, 31 október, 2005, Anonymous Nafnlaus said...

Láttu ekki svona Kiddi! Þú ert karlrembusvín og þú veist það!
JKÁ

 
At föstudagur, 04 nóvember, 2005, Blogger kp said...

Já, ég veit, þetta bara ákveðinn hluti af ímyndargerð sem ég er að vinna í fyrir væntanlegt prófkjör í Kvennalistanum ... Æ, nei, það er víst búið að leggja hann niður. Hvað með Alþýðubandalagið ... Nei, það er víst búið að leggja það niður líka. Hvar eiga kommar nú heima? Jú, heyrðu, Vinstri grænir ...

 

Skrifa ummæli

<< Home