þriðjudagur, júlí 11, 2006

Tár, bros, takkaskór og eitt stang frá signore Zidane

Þekktur er ég fyrir margt annað en áhuga á tuðrusparki. En, þegar heimsmeistaramót í fótbolta er annars vegar, hvað þá að Ítalir leiki til úrslita, þá er nú komið tilefni til að gefa því gaum.

Ég veit svona nokkurn veginn út á hvað fótbolti gengur. Það eru ellefu leikmenn í hvoru liði og skipta með sér gríðarstórum grasivöxnum leikvelli. Hvort lið á síðan að sækja yfir á vallarhelming hins og helst að koma boltanum í þar til gerðan ramma; þá er mark. Það má sparka í boltann, skall'ann en alls ekki taka hann höndum nema þegar hann lendir utanvallar; þá má tvíhenda honum inná völlinn og svo má sá sem vörð stendur um rammann eftirsótta, svo nefndur markmaður, bera hendur fyrir höfuð sér og rammans og fara öllum sínum höndum um knöttinn eins og hann vill. Helst má ekki toga í aðra leikmenn og alls ekki hrinda þeim, hvað þá kýla þá eins og tíðkast í annarri svokallaðri íþrótt. Það má heldur ekki skalla fólk og trúlega ekki stanga heldur. Til þess að allt fari vel fram og samkvæmt reglum þessum er til staðar alvaldur dómari.

Suður Spáni á er sparkið giska vinsælt, en þar stundar alþýðan það líka að hópast í kringum svo kallaðan matador sem búinn er rauðu klæði og vel ydduðum spjótum. Inn á hringleikvang er síðan hleypt blásaklausum bola sem samkvæmt náttúrunnar skikkan tekur að stíga dans við matadorinn. Dansinn er einhvern veginn svona: Matadorinn viðrar teppið sitt rauða og bolinn verður alveg snar og æðir mót teppamanninum að stanga hann, en sá veit betur, hefur teppið á loft og boli þýtur fram hjá og hlýtur að launum spjót í síðu. Olé.

Ítalir og Fransmenn léku til úrslita í heimsmeistarakeppninni; tvær sjóðblóðheitar Evrópuþjóðir. Leikurinn gekk nú svo og svona, en þegar hann var búinn var hvort lið búið að skora sitt markið og taldist jafntefli. Það þykir ekki nóg í úrslitakeppni og því var keppninni framhaldið. Þá fór ekki betur en svo að forystusauði Frakka fannst að sér vegið af einum leikmanni Ítala, setti undir sig höfuðið og stangaði manninn sem mannýgt naut eða hundfúlll hrútur. Dómaranum fannst þetta ekki gott og dæmdi manninn útaf. Að framlengingu lokinni var staðan óbreytt og þá tekið til við að keppa í vítasparki; fimm tilraunir á hvort lið. Þeim bláu, Ítölum það er, tókst að skila af sér fullu húsi en Fransmenn brenndu af einu sparkinu. Og þá lágu úrslitin fyrir.

Margir eiga eftir að sýt'ann Zidane nú þegar hann lætur af öllu tuðrusparki eins og hann var áður búinn að lofa. Og sennilega á Zidane eftir að sýta þetta stang sitt, þetta frumhlaup tuddans í sér sem bara varð að setja undir sig höfuðið og brýna hornin á ítalska varaliðanum Materazzi. En svona fór það. Zidane stangaði, kannski sá hann rautt, en það hefur trúlega ekki verið neitt á við spjaldið rauða sem dómarinn dró úr rassvasanum og hóf upp hátt mót himni og reiði guðanna.

Annars merkilegt þetta með Materazzi. Kom inn á sem varamaður, fékk svo dæmt á sig vítaspark sem Zidane skoraði úr. Skoraði síðan sjálfur jöfnunarmarkið. Varð svo sundurorða við Zidane sem varð til þess að sá síðarnefndi stangaði hann í bringuna og var fyrir það vikið af velli. Skoraði svo eitt af mörkunum fimm í vítasparkinu. Materazzi var þá matador eftir allt saman og Zidane tuddinn. Og ólympíuleikvangurinn í Berlín eitt stórt nautaat.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home