mánudagur, júní 12, 2006

Trúverðugleiki Fréttablaðsins

Man einhver eftir Auðunni Georg Ólafssyni? Trúlega fáir. En Markúsi Erni? - Jú, bíddu við, var hann ekki útvarpsstjóri ... en festist í lyftu ... og?

Jóhann Hauksson fréttamaður hefur átt erfitt á fjölmiðlum síðustu misserin. Hann var dagskrárstjóri á Rás 2 með starfsstöð á Akureyri þangað til honum ofbauð (eins og mörgum, mörgum fleirum) ráðning fyrrnefnds Auðuns Georgs í starf fréttastjóra RÚV og sagði upp.

Fékk þá inni á Fréttablaðinu og hefur verið með bestu og mest áberandi blaðamönnum þess blaðs sem þó hefur ekki farið batnandi á síðustu mánuðum. Er bara satt að segja orðið hundleiðinlegt aflestrar.

Jóhann Hauksson er greinilega maður með skoðanir og prinsippin í lagi. Hann lét ekki bjóða sér ruglið á RÚV og gekk út. Nú var hann, að eigin sögn, lækkaður í tign á Fréttablaðinu, þ.e.a.s. færður úr þingfréttum yfir í erlendar fréttaþýðingar, og hann ekki sáttur við það: Gekk út.

Jóhann hefur nefnilega verið óragur við að tjá sig um menn og málefni í tilþessgerðum dálkum í Fréttablaðinu og í systurmiðlinum NFS. Hann hefur verið gagnrýninn á ríkisstjórnina og fáránleg mál úr fortíðinni eins og nýuppkomið hlerunarmál. En, ég held að maðurinn sé nú bara fyrst og fremst gagnrýnin, punktur. Og það er nákvæmlega það sem lesendur Fréttablaðsins þurfa á að halda, hafandi önnur blöð sem leynt og ljóst ganga erinda ákveðinna afla í þjóðfélaginu.

Jóhann virðist semsagt hafa haft fullmiklar skoðanir samkvæmt ráðamönnum á Fréttablaðinu. Og Jóhann lætur greinilega ekki troða á sér og fer. Það er ekki auðvelt að vera prinsippmaður á Íslandi í dag.

Í þessu samhengi er kannski fróðlegt að lesa eldri pistil hér í Gúrkunni um Þorstein Pálsson og Fréttablaðið

Niðurlag Hallgríms Helga í pistli í Fréttablaðinu í dag er svona:

„Eina afleiðing uppljóstrunar um samráð olíufélaganna var afsögn borgarstjóra R-listans. Enn á ný þræðir íslenskt réttlæti sína krákustíga. Fyrsta fórnarlamb símhlerunarmálsins er blaðamaður á Fréttablaðinu ...“

Lesa Hallgrím

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home