miðvikudagur, júní 28, 2006

Dæmalaus saga

Hljóp einu sinni með góðum hópi fólks undir merkjum Langhlauparafélagsins. Hlaupið var frá Vesturbæjarlauginni 2-3 í viku. Eitt skiptið hljóp ég með konu einni. Á góðum spjallhraða. Og það var spjallað. Hún sagði: „Ég æfi og æfi en samt er ég ekki að bæta mig neitt.“ Við vorum komin á Ægisíðuna austan úr Nauthólsvíkinni. Veður gott, sumar og augu mín höfðu fest sig við gömlu grásleppuhjallana í fjöruborðinu (hún var sennilega í íþróttabrjóstahaldara svo barmur hennar bauð ekki upp á að ég festi augu mín þar). Nú?, sagði ég, og skipti um fókus. „Já, það er bara eins og ég standi í stað, það er engin bæting í tíma.“ Við hlupum áfram og ég melti þetta smá stund, tók inn svipbrigðin í andliti samferðarkonu minnar. Hún virtist ekkert hafa fyrir þessu skokki og ekki voru aukakílóin að íþyngja henni, bara áhyggjur: hún var búin að æfa vel og það sást.

Við vorum komin fram hjá hjöllunum og ég sagði, sí svona: „Þarftu ekki bara að hlaupa hraðar?“ Smá hik, örfá skref til viðbótar en svo lét árangurshefta vinkona mín frá sér einlægan hlátur: „Þú segir það!“ Og það var eins og íþróttabrjóstahaldarinn léti undan því barmur vinkonu minnar var nú allur meiri. Eða ég var kominn með fókus, hættur að pæla í grásleppu, brimi og grjóti.

Ég veit, þetta var fáránlegt svar, asnalegt, en samt gefið í fullri einlægni. Það er nefnilega þannig - og það vitum við öll - að annmarkar okkar og takmörk eru oft hugarfarsleg. Svarið virtist spontant en var það ekki. Og það leiðir okkur að næstu sögu. Suður til Napolí.

(Hættu svo að hugsa um brjóstin, lesandi góður, þetta var bara svona til þess að lífga upp á annars hversdagslega samræðu. Ég man í alvöru ekkert eftir því hvort hún var í íþróttabrjóstahaldara eða ekki eða hvort það var nokkuð þar undir sem orð eru á gerandi. Í alvöru.)

... ... ...

Hálfmaraþon í Napolí vorið 1998 og ég mættur. Ekki í miklu hlaupformi en mig langaði að taka þátt í þessu fyrsta nýendurvakta Napolímaraþoni. Nema hvað, ég var á síðustu kílómetrunum og brekka í sjónmáli. „Jesús minn“, hugsaði ég, „búinn að hlaupa í gegnum sótmengaðan miðbæinn þar sem napólskir bílstjórar sýndu okkur sólbökuðum hlaupurunum enga miskunn og nú brekka sem engan endi virðist taka!“ Og ég samdi við sjálfan mig um að ganga bara brekkuna og skokka síðan spölkornið sem eftir var í markið þegar brekkunni sleppti.

Lét af skokkinu og lagði gangandi á brattann. Hlaupararnir sem ég hafði eytt orku minni og heiðri í að hlaupa uppi tíndust nú einn af öðrum fram úr mér þarna í brekkunni. „Fokk“ hugsaði ég og lagaði buxnastrenginn en hefði þó þurft að hysja upp um mig buxurnar allar. Og það kom að því. Hópur ítalskra karla mér nokkuð eldri þusti fram hjá. Ég leit undan í skömm, en í stað þess að hæða mig þarna í suðursólinni og napólskri bæjarbrekku kölluðu þeir til mín hvatningarorð: „Svona nú, áfram, ekki nema þessi brekka og við erum komnir í mark. Þú getur þetta!“ „Friður á jörðu og allir menn vinir“ hugsaði ég; „Fokkit, ég á nóg eftir - Já, og þeir sögðu „við““ Og ég tók á rás og fram úr körlunum vinum mínum, spændi upp brekkuna eins og hún væri þúfa á leið minni. Og rétt handan þúfunnar var markið langþráða.

Svona var þessi saga, asnaleg dæmisaga sem hljómar eins og saga af brjóstum og gömlum körlum en er í reynd saga um ... ég veit ekki hvað ... - Hvað var eiginlega pointið með þessu? - Jú, ég vildi koma að mynd af mér frá Napólí. Það var það. Eða var það: Ef maður hleypur ekki nógu hratt þá er bara að hlaupa hraðar?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home