laugardagur, júní 10, 2006

HórMang 2006

Heimsmeistaramótið í fótbolta (HM) er nú hafið í Þýskalandi og stendur víst næstu vikur. Ef einhvern tímann er þess virði að horfa á fótbolta þá eru það viðureignir þessa móts. Ég býst þó ekki við því að sjá nokkurn leik því þeir eru sýndir í læstum útsendingum. Hélt að það væru einhver lög um fótboltann hér í Evrópu sem kvæðu á um að leikir sem þessir yrðu að vera sýndir í opnum útsendingum. Kannski á það bara við um úrslitaleikina.

En, það er stór SVARTUR BLETTUR á þessari keppni. Svo virðist sem töluverður fjöldi þeirra karlmanna sem sækja Þýskaland heim til berja tuðrusparkið augum geri líka kröfu um að geta keypt sér kynlífsþjónustu. Við skulum ekki fara út í þá umræðu hér hvort sú meinta þjónusta eigi rétt á sér eður ei, en svo er málum háttað í Evrópu að margsannað er að stór hluti þeirra kvenna og stúlkubarna sem þessir karlmenn kaupa til lags við sig stundar EKKI þá „þjónustu“ af fúsum og frjálsum vilja. Þvert á móti: eru þrælar glæpaflokka sem neyða þær í þessi ógeðfeldu viðskipti að viðlögðu ofbeldi og jafnvel dauða. Yfirvöld þeirra borga og landa sem halda keppni af þessu tagi ættu að sjá sóma sinn í því að uppræta þessa starfsemi í stað þess, eins og rætt hefur verið um í fjölmiðlum, að vera á bandi þeirra sem vilja anna eftirspurninni. Hórmang er ekki samboðið sönnum íþróttaanda. FIFA ætti kannski að víkka „Fair play“ konseptið sitt út til þjóðfélagsins alls.

Það er annars merkilegt að orðið „knattspyrna“ hafi fest sig í sessi í málinu okkar. Hefur þótt fínna að nota það orð heldur en „fótbolti“, þótt við notum orð af sama meiði um aðrar boltaíþróttir eins og handbolta og körfubolta. En, þetta orð, „knattspyrna“ er eiginlega bara vitleysa því ekki spyrnir maður við boltanum heldur sparkar maður í hann. Samt stöglumst við á þessu að leikmaður taki vítaspyrnu þegar hann augljóslega sparkar boltanum að markinu en spyrnir ekki við honum. Ef riddarar græna vallarins ferðuðust hins vegar um á rassinum mætti vel hugsa sér að þeir spyrndu við boltanum þegar þeir kæmust í færi við hann. Málfarsráðunautur á RÚV benti á þetta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home