þriðjudagur, júní 13, 2006

Myrkursmegin mánans

Stefnumót við Gilmour, Mason og Right, Lexington, Kentucky, vorið 1988

Does anybody here remember Vera Lynn? Ég er skiptinemi í Cincinnatiborg í Ohioríki. Átján ára. Búinn að hlusta á Pink Floyd síðan ég var þrettán; Final Cut, síðasta platan sem þeir gerðu allir saman, hafði farið vel í mitt gelgjaða þunglyndi, margspiluð í Marantz fermingargræjunum mínum (sem ég, nota bene, á ennþá og nota). Pink Floyd eru löngu hættir og útséð með það að maður fái að sjá þá á tónleikum. En hvað gerist. Þeir Gilmour, Mason og Right koma saman í einu stundarbrjálæði og gera plötuna Momentary Lapse of Reason. Og túra.

Ég trúi ekki mínum eigin skynfærum þegar ég frétti að sveitin ætli að halda tónleika á stórum íþróttaleikvangi handan Ohio árinnar. Samt kaupi ég miða og fæ þá Francesco og Rafa, vini mína og skólafélaga frá Ítalíu og Spáni, til að slást í för með mér. Er þetta draumur eða bara one of these days? Þeir jafnspenntir og ég. Og nú vantar bara farið. Redda því með amerískri vinkonu minni, kærasta hennar og vini í japönskum smábíl. Pink Floyd er internasjónal. Talar til þeirra sem vilja heyra. Læt mig hafa það að kúldrast aftur í skotti í hálftíma akstri í það minnsta.

Spenningurinn er svakalegur. Liðsmenn Floyds hins bleika eru frægir fyrir að vera myndfælnir. Myndatökur bannaðar: Leitað við innganginn. Kameran samt meðferðis því ég ÆTLA að ná góðum myndum. Tek myndavélina í sundur og kem aðdráttarlinsunni fyrir í nærbuxunum þannig að ég lít út eins og vel vaxinn pornóleikari, en Francesco sér um að smygla boddíinu inn. Og allt gengur eftir. Það er þreifað og þuklað við innganginn en ekki á hinum allra heilögustu stöðum.

Salurinn risastór, sá stærsti sem ég hef komið í. Okkar sæti efst og aftast. Útsýn samt góð, og sándið, maður lifandi: Búmmm. Og sjóvið eftir því. Smelli af tveimur, þremur filmum 400 asa (stækkaði eina og rammaði inn eftir tónleikana). Við erum eins og litlir strákar að hitta Íþróttaálfinn í eigin persónu. Við föðmumst þarna á pöllunum og gott ef við grátum ekki líka. Við erum að horfa á goðin okkar og hlusta á tónlist sem við héldum að við fengjum aldrei að upplifa læf. Ég hugsa til Kalla vinar míns heima. Wish you were here. Við Kalli áttum Pink Floyd saman.

Stefnumót við Roger Waters
Reykjavík, sumarið 2006


Nú var komið að því að ég sæi og heyrði það sem uppá vantaði af Pink Floyd: Nú var það höfuðpaurinn, sjálfur yfirséffinn, sækadelinn og æðstiprestur hins grúfaða þunglyndis, herra Waters. Og hann hafði með sér gamlan félaga, trymbilinn og múrarann Mason.

Keyrði á mínum Skódabíl ofan af Skaga. Nú sjálfur við stýrið og einn á ferð. Átján ár liðin frá síðustu fundum við Floydsins fríðu hljóma. Satt að segja ekki sama eftirvæntingin, en samt spenntur. Nú yrði bleik brugðið ef Rogerinn rokkaði ekki. Ég var séður og lagði bílnum undir Úlfarsfelli og gekk yfir golfvöllinn stuttan spöl að Egilshöll. Þannig ætlaði ég að losna við það að verða innlyksa með bílinn eins og raunin varð með þá sem lögðu of nærri höllinni.

Var kominn klukkan átta þegar tónleikarnir áttu að byrja. Löng röð við innganginn. Gekk aftur með henni til að finna upptökin. Virti fyrir mér fólkið í röðinn og fór að reikna út svona sirka meðalaldurinn. Niðurstaða: plús mínus 40 ár. Gekk áfram þangað til maður einn, um sirka fertugt, benti mér á að ég væri í raun að ganga í kolranga átt; að röðin byrjaði nefnilega handan við hæðina sem skildi að bílastæðið framan við höllina og veginn hinumeginn. „Ertu að segja það satt“, sagði ég. Hann kinkaði kolli og ég vatt mér yfir hæðina. Og sjá, þar var önnur röð og lengri. „Allt í góðu lagi“, hugsaði ég, „þeir fara ekki að byrja tónleikana fyrr en flestir eru komnir í hús“.

Röðin var löng og sagt er að hún hafi spannað tvö póstnúmer. Eftir tuttugu mínútur var ég búinn að fá ósýnilegan stimpil á handarbakið og kominn inn á svæði A. Tímasetningin gat ekki verið betri; Rogerinn plöggaði í bassann og taldi í, á íslensku: Upp með Múrinn. Þetta var ekki leiðinlegt og ekki heldur það sem á eftir kom. Tók mér stöðu aftast á A svæðinu og íklæddist gæsahúðinni:

How I wish, how I wish you were here.
We're just two lost souls
Swimming in a fish bowl,
Year after year,
Running over the same old ground.
What have we found?
The same old fears.
Wish you were here.

Minnispunktar fyrir næstu tónleikaferð:
- Taka með mér vatnsbrúsa.
- Fara í ofurháu glamrokkskónum mínum eða á stultunum hennar mömmu (til að sjá betur).
- Hafa með Íbúfen (hálsrígurinn sko).

> Ekki nóg. HLUSTAÐU þá á 5.30 mín af ferðasögunni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home