þriðjudagur, júlí 04, 2006

TRAMPÓLÍN - smásaga - I. hluti

„Nei, það kemur ekki til mála! Og við ræðum þetta ekki meira!“

Úthverfi í Reykjavík. Raðhús. Fjögur í fjölskyldu: pabbi, mamma, sonur og dóttir; systkyn, feðgin, mæðgin, feðgar, mæðgur, hjón. Þakið þarfnast viðgerðar, sólpallurinn nýmálaður, fyrir utan lítinn blett á honum miðjum sem varð eftir þegar fór að rigna og stytti ekki upp fyrr en málarinn var ekki einasta kominn úr málaragallanum heldur úrklæddur málarastuðinu, hættur puðinu og fastur í helvítisskítaverðurstuðinu.

„Og til hvers í ósköpunum að kaupa fokdýrt trampólín þegar veðrið í þessari helvítis borg býður ekki upp á annað en rigningu dag eftir dag eftir dag.“

Honum varð litið út um eldhúsgluggann. Handan runnans sem skildi að þeirra garð og nágrannans þarna megin hússins sá hann tvo krakkakolla skjótast upp í takföstum ritma. Hljóðrásin gæti hljómað einhvern veginn svona: Boing, kvakk, boing, kvakk - og svo framvegis.

Stóð fyrir framan eldhúsvaskinn væddur viskastykki og hamaðist við að tæma úr uppþvottavélinni. „Og helvítis uppþvottadraslið getur ekki einu sinni skilað af sér þurru,“ sagði hann og tók til við að þurrka innan úr enn einu glasinu og setja á sinn stað upp í skáp. Stærri glösin í einni röð, minni í annarri.

Kvöldmatnum nýlokið, börnin þotin út að hoppa á trampólíni nágrannans og þau tvö eftir í elhúsverkunum.

En, hvað með Hana, það er ekki eins og Hún hafi ekki neitt til málanna að leggja. Svona byrjaði þessi eftirkvöldverðarsena. Hún: „Eigum við ekki að kaupa handa þeim þetta trampólín? Það eru allir komnir með trampólín og þau langar svo í. Þau hafa nú verið dugleg að hjálpa til og ég var búin að lofa þeim þessu.“

Matarafgöngum skafið af diskum í poka - merkilegt nokk - í þann sama poka og kvöldmaturinn hafði borist inn á heimilið í. Í Bónuspoka inn, í Bónuspoka út. Bónushakk, bíb, Bónuskartöflur, bíb, Bónusmjólk, bíb, Bónusbíbíogblaka, bíb. Uppþvottavélin tæmd og hreinu diskarnir frá því í gær raða sér skítugur inn á sama stað. „Þetta er allt ein helvítis hringavitleysishringekja,“ hugsar hann: „Upp og niður í hjónarúminu, úps, babb í báti, barn í maga, barn niður úr maga. Matur upp í munn, niður í maga og svo framvegis. Barni hossað upp og niður. Barn á trampolíni, upp, niður, upp, niður.“

[Framhaldssmásagan TRAMPÓLÍN mun birtast hér á Gúrkunni á næstu dögum, vikum eða misserum. Tillögum að framhaldi má koma á framfæri með pósti til kristinn[hjá]romarvefurinn.is.

Í næsta þætti fær Hún að segja sína sögu - ég veit, þetta er hingað til soldið mikið Hann.]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home