mánudagur, júní 05, 2006

Þaðerbaraeinsogþaðer

Eins og fram hefur komið hér í Gúrkunni á Rómarvefurinn 5 ára afmæli. Af því tilefni sendi ég út fréttatilkynningu til fjölmiðla og það í fyrsta skipti frá því vefnum var hleypt af stokkunum. Ég er að sjálsögðu afskaplega innvolveraður í vefinn; einn daginn finnst mér hann algjört drasl, hinn bara nokkuð góður. En, ef ég reyni að vera nokkuð ærlegur við sjálfan mig og kannski pínu góður þá má kannski segja sem svo að þetta sé ágætur vefur, a.m.k., eins og enskurinn segir, „a work in progress“.

Fimm ár á netinu er alveg hellingur. Skoðum þetta aðeins. Þegar ég lagði drögin að Rómarvefnum sá ég fram á verulegan fjárhagslegan ávinning; allar þessar þúsundir Íslendinga sem ferðast til Ítalíu ár hvert myndu náttúrlega sækja vefinn heim og það myndu auglýsendur ferða og annars sem tengist Ítalíu hér heima svo sannarlega kunna að meta. Ég sá hins vegar fljótt að þetta væri eiginlega ekki svona. Kommon, þetta var árið 2001: það voru allir í e.k. drauma - vef - ehf - geimgöngu til sigurs fyrir mannkyn allt. Spútnikfyrirtæki í netbransanum sátu um bólugrafna fyrsta árs tölvunarfræðinema í háskólanum og buðu þeim milljónir fyrir að í guðanna bænum að hætta námi og byrja að vinna hjá sér. Svona var tíðarandinn. Og ég dansaði með eins og margir aðrir. Á netinu var hægt að græða skrilljarða.

Fimm ár á netinu er nefnilega alveg hellingur. Netbólan sprakk en Rómarvefurinn hélt sínu striki, hangir enn uppi og sækir enn í sig veðrið. En, verðið. Bullandi mínus. Ég gerði máttlausar tilraunir til að fá auglýsendur. En, hver auglýsir á vef sem fær 3-400 gesti á viku? Ég er löngu hættur að reyna að fá auglýsendur og er bara nokkuð stoltur yfir því að halda úti vef fyrir eiginn reikning sem mörgum finnst vera gagnlegur og er algerlega án auglýsinga. Fyrir utan mömmu; hún fær að auglýsa gratis sína frábæru skó sem hún flytur inn frá Danmörku eru bara mjög góðir.

Það er bara nokkuð sáttur lénsherra sem hér skrifar, herrann á léninu romarvefurinn.is sem hugsar sem svo að hann eigi þó allavegana nokkra þræði í vefnaðinum á fyrsta áratugi netaldar. Og pæliði í því hvað sumir sækja í söguna; einn af þeim vefjum á árdögum netaldar sem eru hvað langlífastir er vefur um gömlu Róm sem einn armur Íslendingur heldur úti.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home