föstudagur, nóvember 04, 2005

Woody Allen

Mikið rosalega sá ég vonda mynd eftir gamla goðið mitt Woody Allen í imbanum mínum hér heima á sunnudagskvöldið síðastliðna. Sú upplifun varð mér efni til eftirfarandi íhugunar og þess að líta yfir feril karlsins og setja kannski upp lista yfir mínar eftirlætis Woody Allen myndir.

Þrátt fyrir að Woody karlinn eigi nú rétt tæpan mánuð í sjötugt hefur hann lengi þráast við að leika í myndunum sínum sem venjulega fjalla um miðaldra efri miðstéttunga í Nýju Jórvík sem eru í sambandi eða á leiðinni í eða úr einu slíku og svo framhjáhaldið og allt það. Hefur hann nú í síðustu myndum sínum loksins gefið þetta upp á bátinn og eftirlátið rulluna yngri mönnum. En, það eru ekki svo góðar fréttir því leikararnir sem hann velur til að túlka sína rödd eru sumir svo vondir að það er skelfilegt á að horfa. Ég nefnilega get ekki annað en séð fyrir mér Woody þegar sú týpan er að tala í myndunum hans og því verður þetta allt saman enn raunalegra þegar viðkomandi leikari er einhvern veginn að reyna að vera Woody en er það náttúrlega ekki og svo órafjarri.

Gamla manninum væri nær að skrifa myndir um gamalt fólk sem hann gæti svo sjálfur leikið í. Þannig er hann bestur. Woody Allen hefur aldrei og mun seint fá leikstjóraverðlaun, kannske vegna þess að það sem einkennir hans frábæru myndir er hnyttinn texti sem hann túlkar sjálfur. Honum hefur oft í sínum eldri myndum lánast að velja með sér frábæra leikara (Keaton, Wiest, Alda, Cane, o.fl.) og kannski er góður leikur þeirra þeim sjálfum mest að þakka. Svo hefur Allen valið með sér afleita leikara eins og í þessari mynd, Melinda, Melinda. Leikaravalið er svo vont að það er eins og maðurinn hafið bara kastað (skipað í hlutverkin) beint upp úr þáttunum The O.C. Nú má hún Júlíetta mín Taylor bara fjúka ef hún ræður einhverju hérna um.

Woody Allen hefur verið ótrúlega afkastamikill listamaður og því verður maður líða honum það að gera eina og eina arfavitlausa og vonda mynd. En, hann á fleiri góðar og svo frábærar myndir en nokkur annar kvikmyndagerðarmaður sem ég man eftir. Hann á nokkur capolavoro þegar flestir aðrir mega prísa sig sæla með að hafa hitt á eitt meistarastykki.

KVIKMYNDAGAGNRÝNI
Melinda and Melinda (sjá umfjöllun hér að ofan): Ein útúrsúrsuð gúrka af fimm alheilbrigðum grænum og ferskum gúrkum sem gefnar eru.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home