föstudagur, mars 17, 2006

Alltaf að heyra eitthvað gamalt

Sat við tölvuna í gær að föndra við orð og myndir. Opið fyrir varpið eins og oftast; á Rás eitt konur tvær að spjalla saman um tónlist. Talið barst suður til Rómar og þá sperrtust mín eyru, hlustirnar víkkuðu út og tal þeirra var ekki lengur mal heldur upplýsingar sem þær numu og báru undir heilann.

Suður í Róm fyrir um einni öld síðan var nefnilega uppi geldingur einn sem var kórstjóri í Sixtínsku kapellunni í Páfagarði. Alessandro Moreschi var geldsöngvari og einn sá allra síðasti sem þá var uppi, en gullöld geldinganna var í barokki 18. aldar.

Það merkilega sem kom fram í spjalli kvennanna var að söngur Moreschis var hljóðritaður. Þetta var árið 1902 og fór upptakan fram við páfamessu í Vatíkaninu. Þetta hafði vakið athygli mína og ég fór að gúgla. Fann upplýsingar um geldinginn, myndir og hljóðritið góða. Setti því saman lítinn pistil að setja á Rómarvefinn og leyfi honum að vera hér líka.

Á vafri mínu um vefinn rakst ég inn á upplýsingavefinn Answers.com sem er mikil fróðleiksnáma orða og mynda.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home