þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Bolludagur, eða hvað?

Ég var flengdur í bak og fyrir í morgun; börnin mín, vopnuð ekta bolludagsvöndum úr Hagkaupum, ætluðu sko ekki að vera snuðuð um bollur dagsins. Engin miskun!

En, pistill dagsins er nú samt ekki innspíraður af rjóma og glassúr heldur sóttur tvö ár aftur í tímann og aðeins betur. Var að gramsa í tölvunni og þetta fann ég. Við erum stödd á Bjarnarstígnum í Reykjavík og það er ...

... ... ...

Þorláksmessa anno 2003

Þorláksmessa. Klukkan er farin að ganga tvö og forseti og biskup og Margrét og Jón á Hólum og Dúdda, Stanley og Harrý í Orrahólum, að ógleymdum landbúnaðarráðuneytinu og Kela á Hvoli, senda bændum og búaliði, elskulegum vinum og ættingjum um land allt hugheilar jóla- og nýárskveðjur með þýðri rödd langþjálfaðra þula Ríkisútvarpsins.

Þorláksmessa. Ég sit við tölvuna að reyna bjarga því sem bjargað verður í mínum jólakveðjum. Frómar óskir um gleðileg jól og gæfuríkt nýtt ár til handa mínum kæru vinum. Sjáum hverju tölvupósturinn getur bjargað.

Þorláksmessa. „Umsóknin um helgi Þorláks var send páfa árið 1198. Svarið barst frá Stjórnardeild sakramenta og guðsdýrkunar í Páfagarði í janúar árið 1984, 786 árum síðar. Og svarið var jákvætt: Þorlákur helgi var lýstur verndardýrlingur Íslands og jarteinin sem honum voru eignuð viðurkennd, að vandlega íhuguðu máli. En þá var lítið eftir af Þorláki annað en dánardægur hans - 23. desember - sem á Íslandi ber hans nafn og fyllist af skötuangan ár hvert, ásamt innkaupum til jólanna sem jaðra við kraftaverk.“ (Pétur Gunnarsson: Leiðin til Rómar).

Þorláksmessa. Hvað er ég að drolla við tölvuskrattann. Nóg er að gera á stóru heimili. Samt svo margt búið að gera. Réðumst í það nú á jólaföstunni að rífa allt út úr baðherberginu okkar litla allt að utanhúsklæðningunni og byggja okkur svo inn aftur. Flísar komnar á veggi og gólf en eftir að fúa, vaskurinn hálfur á, klósettið frammi á gangi og smiðurinn farinn heim í gubbupest.

Þorláksmessa. Börnin að springa úr spenningi. Hvenær koma þau þessi jól - og jólafríið maður? Foreldrarnir meira að hugsa um litinn á fúgunni en þolinmæðarlítil börnin. „Af hverju megum við ekki opna tvo glugga á dagatalinu í dag?“

Þorláksmessa. Bónaði gólf í nótt. Þá gafst loks færi fyrir henni Hildi minni sem þar áður hafði farið hamförum um heimilið í þrifum eftir flísalögnina; steinsag út um og yfir öllu. Ég get svo svarið fyrir það að hún fór á handahlaupum og flikk flakk, sveiflaði sér á milli ljósakróna, smaug undir sófa og inn og út úr myrkum hornum, hljóp um veggi og loft eins og Fred Astaire í Top hat.

Þorláksmessa. Það eru að koma jól og heimsumból. Þá er Kristsmessa um öll heimsins ból.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home