laugardagur, febrúar 18, 2006

Evrópælingar

Hugsanir manns eru mismerkilegar. Viðföng vitundarinnar kúra oft lágt en krefjast þess samt að leggjast undir pálinn. Þetta á að vera háleitur inngangur að rislitlu efni: Nefnilega forkeppni Ríkissjónvarpsins fyrir Evróvisjón. Þetta er víst til, er í kringum mann og maður má til með að pæla og kommentera.

Söngvakeppnin er fyrir löngu orðin að kimafyrirbæri (e. cult) innan Evrópu sem fáir taka alvarlega nema nokkrar háhýrar karlnefnur og kannski Gísli Marteinn og Jónatan Garðarsson. En, við tökum þátt og þá finnst mér að við eigum að gera það af einlægni. Ekki með þessu vanþroskaða viðmóti þess sem hálf skammast sín fyrir þátttökuna og slær þess vegna öllu upp í grín og getur þá alltaf sagt: „Æ, ég var bara að djóka“.

Mér finnst sem sagt að við eigum að senda eitt af okkar góðu íslensku dægurlögum sem við eigum nóg af í stað þessara sérhönnuðu og sterílu laga sem eiga að passa við Evróvisjón mátið. Við eigum semsagt, ef við tökum þátt á annað borð, að vera einlæg, við sjálf og vera óhrædd við að syngja fyrir Evrólýð venjulegt íslenskt lag á íslensku. Og tapa með reisn og góðri samvisku.

„Venjulegt íslenskt lag“ er í mínum huga all teygjanlegt hugtak, en þó ekki lag af því taki sem leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir flytur í gerfi Silvíu Nætur. Það lag er hannað til þess að hæðast að keppni sem á það svo sannarlega skilið. En, það er samt eitthvað svo halló að hæðast að hinu augljósa og taka aukin heldur þátt í hallærinu í stað þess að reyna að rétta af „hallan“ með því að senda inn dægurlagsmíð sem endurspeglar að einhverju leyti íslenska dægurtónlist.

Þegar þetta er skrifað hefur úrsitakeppnin ekki farið fram, en frá því ég heyrði og aðallega sá lagið með Silvíu Nótt þá vissi ég að hinir keppendurnir eiga ekki séns. Því Silvía býður upp á sjó í keppni sem hefur þróast meira yfir í það að vera keppni í show-low en lögum. Verður okkur ómótt í nótt, Silvía? Þegar Evróvisjón er annars vegar verður lýðræðið að lúðræði.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home