sunnudagur, mars 12, 2006

Einkafundir

Valgerður Sverrisdóttir fer hörðum orðum um Styrmi Gunnarsson, ritstjóra Morgunblaðsins, á vef sínum og sakar hann svo að segja um einelti og kvenfyrirlitningu eftir að hún hafnaði frekari samræðum / samráði / samræði við hann. Ráðfrúareinelti.

Styrmir þessi er sami innmúraði ritstjórinn og var Jónínu Benediktsdóttur innan handar í því að safna saman liði til hjálpar einum hr. Sullenberger að ná fram hefndum gegn Bónusfeðgum.

Það er kynferðislegur undirtónn í skrifum Valgerðar, hvorki meira né minna; lesa má á milli línanna að Morgunblaðsritstjórinn hafi gefið henni undir fótinn með því að bjóða henni reglulega „einkafundi“ - og nota bene orðið einkafundur, það er afar kynlífshlaðið orð: „Ritstjórinn lagði áherslu á að við gætum átt reglulega einkafundi í framtíðinni. Ég hafði hins vegar ekki áhuga á því og höfum við ekki átt slíkan fund síðan.“

Jahá. Styrmir þessi er að sönnu valdamikill maður sökum starfa síns og innmúraðrar aðildar að Sjálfstæðisflokknum. Hann finnur til sín og á fundi með málsmetandi mönnum og líka einkafundi með myndarlegum konum. Innmúraður samráðsmaður hans er Kjartan Gunnarsson, erindismaður Sjálfstæðisflokksins. Fram hefur komið að hann og Elín Hirst, fréttastjóri Ríkissjónvarpsins eiga mánaðarlega einkafundi. Þykir sjálfsagt að einn innmúraður sjálfstæðismaður eigi reglulega fundi með fréttastjóra ríkismiðils til að fara yfir hlutina.

Ætli þetta sé svona, að vinstrimenn eigi samfundi en hægrimenn einkafundi?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home