föstudagur, mars 17, 2006

Síðasti geldsöngvarinn

Geldingar (ít. castrati) sem söngvarar eru einstakt fyrirbæri í vestrænni tónlistarhefð, en tímabil þeirra varði frá síðari hluta 16. aldar til um miðja þá nítjándu. Gelding ungra drengja og þjálfun í sönglist var aldrei opinberlega leyfð af kirkjunni en var þó liðin. Það var ekki fyrr en við sameiningu Ítalíu og fall Páfaríkisins 1870 að gelding var með öllu bönnuð.

Alessandro Moreschi (1858-1922) hóf að syngja við páfahirðina árið 1883, en 1898 var hann orðinn stjórnandi kórs Sixtínsku kapellunnar. Hann er eini geldingurinn hvers söngur hefur verið hljóðritaður. Það var víst hending að þessi hljóðritun fór fram, á fyrstu árum þeirrar tækni, því markmið upptökumannanna var víst að taka upp messu páfa; tónlistin fylgdi með. Söngur Moreschi þykir ekki ýkja merkilegur sem slíkur, en heimildin er einstök og sú eina sem til er um geldingssöng.

Ekki skyldi líta á hljóðritið sem dæmi um castrati-söng 18. aldar því talið er að Moresci hafi verið langt frá sönghefð hins fræga Farinellis. Síðasti castrato-inn sem söng á sviði, Velutti, hafði látið af því um þrjátíu árum áður en Moreschi fæddist. Söngur þess síðarnefnda tilheyrir því söngheimi síðari hluta 19. aldar kirkjutónlistar en ekki barokkóperusöng eins Velutti flutti hann.

Hér getur þú hlustað á geldsöngvarann Moreschi syngja Ave Maria við messu í Páfagarði árið 1902.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home