miðvikudagur, mars 08, 2006

Góða nótt og vegni ykkur vel

Svart. Hvítt. Svart og hvítt. Þá var allt annað hvort svart eða hvítt. Eða var það rautt og blátt? Sígarettureykur. Kent sígaretttur. Jazz, blaðamenn, sjónvarp, kommúnismi, McCarthyismi. Og Alcoa. Allir kóa með Alcoa.

Sá semsagt kvikmyndina Góða nótt og vegni ykkur vel í Laugarásbíó á mánudagskvöldið.

Bandaríska álfyrirtækið kemur mjög við sögu í myndinni sem aðalauglýsandi í sjónvarpsþættinum sem hún fjallar um. Stórfyrirtækið er ekki sátt við gagnrýni þáttarstjórnandans á vinnubrögð McCarthys og allir kóa nema Edward R. Murrow eftir því sem þessi ágæta mynd segir okkur, mynd sem virðist fjalla svo miklu meira um samtíma okkar heldur en um McCarthy-hryllinginn á 6. áratugnum. Því þótt allt sé nú í lit og háskerpu, plasma og LCD, er allt samt sem áður litlaust og flatt. Svart eða hvítt vilja sumir hafa það. Við og þeir. Góðu og vondu. Trúaðir og trúleysingjar.

Það er sjaldfenginn unaðs munaður að sjá svarthvíta mynd í bíó og því var heimsóknin í Laugarásinn vel ferðarinnar virði. Myndin er svona lala, haganlega gerð með góðum leikurum en sagan ansi takmörkuð. Þetta er fyrst og fremst mynd sem ætlað er að koma á framfæri ákveðnum boðskap. Og til hverra? Jú, til Bandaríkjamanna. Fyrst og fremst þeirra. Þetta er ekki mynd um ógnartíma McCarthys og þau meðul sem þóttu á þeim tíma nauðsynleg og sjálfsögð til að hefta útbreiðslu hins illa kommúnisma. Nei, þetta er mynd um Bandaríkin í dag og stefnu þeirra og breytni í stríði þeirra gegn hryðjuverkum og þau meðul sem þau telja sig mega nota til að ná fram hinu göfuga markmiði.

Clooney lék og leikstýrði. Leikur líka í myndinni Syriana, en fyrir það hlutverk fékk hann einn gullsleginn Óskar. Átta prósentum færri Bandaríkjamenn horfðu á Óskarinn sl. sunnudagskvöld: Full margar myndir um homma og pólitík.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home