fimmtudagur, mars 09, 2006

Af einu góðglöðu skáldi

Aldrei, aldrei ætti maður að blogga um það fyrir framan alheim að maður sé að skrifa bók, sína fyrstu svona alvöru skáldsögu. Nei, maður ætti frekar að drífa það af að skrifa hana og svo tjá sig um hana. Ekki „vera að skrifa bók“ í nokkur misseri og verða þannig merktur í huga fólks sem maðurinn sem er að skrifa bókina.

Nei, ég hef séð allt of margar amerískar bíómyndir um frústreraða og misskilda listamanninn sem er að skrifa bók. Bókina. Og hefur verið að skrifa bókina. Lengi. Og ekkert gengur.

En nú bregður svo við að maður nokkur íslenskur sem sennilega hefur aldrei í amerískt bíó komið hefur bloggað lengi um m.a. það að hann er að skrifa bókina sína. Og gengur svona og svona eins og svona og svona við er að búast, enda ekkert áhlaupaverk að skrifa bók - er mér sagt. Eitt bloggið hans er svona:

Ég er ekki að skrifa skáldsögu.
Ég er að skrifa bók.
Ég veit ekki hvenær hún kemur út.
Hún verður góð.

Þetta er þá kannski ljóðabók. Vinur minn, sem er (af annarlegum hvötum?) fastur lesandi bloggsins og benti mér á síðuna, segir skáldið áreiðanlega vera búið að tryggja sér útgáfu og pottþétta sölu með þessu bloggi sínu því hundruð lesenda fylgist með blogginu, ef ekki þúsundir.

Humm, ég ætti kannske að fara að huga að efni í bók, byrja að skrifa ... og skrifa um það ... á blogginu mínu. Eins og tíðarandinn er í dag er kannski jafngott að vera góðglatt skáld og góðskáld, í það minnsta ef lífið býður ekki upp á hvort tveggja.

> Bókarskrifari hinnar óskálduðu sögu bloggar á slóðinni agustborgthor.blogspot.com Svo má líka stækka myndina hér að ofan með því að smella á hana.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home