fimmtudagur, mars 23, 2006

Garður

Trúlega fer margt í þessu bloggi mínu fyrir ofan garð og neðan hjá lesendum þess. Það er þó ekki minn stíll að ríða á garðinn þar sem hann er lægstur; frekar að ég velji mér verkefnin sem erfiðari eru heldur en hin sem eru kannski léttari og fljótunnari. Og allt skal vel úr garði gert. Ég er þó enginn utangarðsmaður þótt ég leyfi mér stundum að sitja hjá garði og hugsa mitt; er vel í húsum hæfur og í görðum græfur.

Í varnarmálum þykir oft gott að setja upp varnargarða. Kínamúrinn er eitt stórt dæmi um slíkan garð og er hann sennilega ríflega sauðheldur. Ekki veit ég þó hvort þessi garður hér á Breiðinni á Akranesi sjáist alla leið utan úr geimnum eins og sá kínverski, en sennilega má sjá hann ef vel er rýnt í Jarðarmyndirnar á Google. Hreint makalaus þjónusta sem þar er boðið uppá. Mér leiðist í Garðabæ, en tek vel á móti fólki þaðan og víðar að þá það ber að mínum garði.

[Myndin er semsagt af grjótgarði rétt við ströndina á hinni s.k. Breið syðst á Skaganum. Akrafjall er svo utangarðs.]

> Garðurinn kemur fyrir í skammmynd sem heitir Rok og horfa má á í vefvarpinu gúrkaTV.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home