mánudagur, apríl 03, 2006

Akrafjall

Gekk á Akrafjall laugardaginn 1. apríl í góðum félagskap vinar míns Jóns Knúts. Jón er göngugarpurinn í teyminu; hann drífur mig með sér að ganga á fjöll, ég fæ hann hins vegar með mér í hlaup. Þá er venjulega hlaupið frá Vesturbæjarlauginni góðu og gjarnan út í Nauthólsvík og kannski austur fyrir Öskjuhlíð.

Nema hvað, það var skjannasól og nokkuð vindsamt, Mýrarnar í ljósum logum norðan megin en lítill neisti suður á Kjalarnesi að myndast við að verða að miklu báli. Skraufþurrt landið freistar brennuvarga.

Akrafjall er magnað fjall og það verð ég að játa að ekki þekkti ég hið sanna andlit þess áður en ég flutti hingað upp á Skaga. Fjallið sýnir nefnilega ekki Reykvíkingum sitt rétta andlit. Og áður en ég flutti hingað var Akrafjall bara svona meira fjólublár draumur í fallegu lagi um Esjuna. Man ekki einu sinni eftir að hafa veitt fjallinu eftirtekt þau skiptin sem ég keyrði út um skut Akraborgarinnar og brunaði inn og strax út úr bænum á leið eitthvert norðar og vestar.

Fjallið er svipmikið þar sem það lúrir hérna á nesinu milli Hvalfjarðar sunnanmegin og Leirárvogs norðantil; eiginlega tvö fjöll sem taka höndum saman með Berjadal á milli sín. Við gengum á Suðurfjallið og upp á svipmikinn tind þess sem heitir Háihnjúkur sem er þó sá lægri tvegga tinda, þetta 555 metrar. Hæst rís fjallið því á Geirmundartindi norðanmegin í 643 metrum.

Útsýnið var blátt og áfram og sem ég stóð þarna uppi á Háahnjúk með Norðfjarðar-Knúti, tveimur hröfnum og helvítinu honum Kára þá sýndist mér ekki betur en það væri eitthvað bogið við sjóndeildarhringinn.

Svo töltum við niður og það þýðir ekkert að hringja í mig því fjallið hirti símann. Nú er ég bara í sambandi við náttúruna.

> Hér má lesa um Akrafjall á fróðlegum vef Akraneskaupstaðar. Myndin er af Háahnjúki.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home