þriðjudagur, apríl 25, 2006

Sjoppur - sætar minningar

Ég fór allt í einu að hugsa um sjoppur. Merkilegir staðir sjoppur. Sjoppulegir staðir sjoppur. Sætir staðir sjoppur. Allt morandi í sælgæti og fátt annað. Brjóstsykur, súkkulaði, lakkrís, gos og ís, sómahamborgarar, pylsur og samlokur, kók í dósum, gleri og plasti, stór, lítil, risastór, súper, kókosbollur, lindubuff og staurar ...

Sjoppan er sennilega sterk í minningunni hjá öllum Íslendingum. Öllum. Barn kemur inn í sjoppu og dýrðin blasir við því: Líkaminn og löngunin öskra á nammi, nammi, nammi! En, það er hár varnarmúr sem skilur barnið frá sælu góðgætisins. Gamall karl, kona eða unglingsstelpa hinum megin afgreiðsluborðsins. Handhafar og útdeilendur gæðanna. „Hvað ertu með mikinn pening væni?“

Það hefur ekki vantað sjoppur á Íslandi. Ekkert bæjarfélag er svo aumt að þar sé ekki sjoppa. Ef það er engin sjoppa flýttu þér þá í burtu. Engin sjoppa, engin menning. Engin sjoppumenning. Einu sinni hétu allar sjoppur eitthvað, það er í stærri bæjunum þar sem fólk er vel sjoppað. Og virðulegri sjoppurnar höfðu orðið „söluturn“ að e.k. fornafni, hétu þá t.d. Söluturninn Tvisturinn. Nú heita sjoppurnar bara Bónus vídeó.

Einu sinni vann ég í sjoppu. Það var leikhússjoppa - ekki í turni heldur bragga. Revíuleikhúsið sýndi farsann um Karlinn í kassanum í Hafnarbíói, hermannabragganum gamla sem stóð neðst við Barónstíginn og Reykvíkingar muna e.t.v. eftir úr Rokki í Reykjavík. Nema hvað, þarna var okkur Frissa, syni Sögu Jóns, falið að selja úr leikhússjoppunni fyrir sýningu og í hlénu að sjálfsögðu. Það var keypt Nizza, Pipp, lakkrís og leihúskonfekt, Ópal og svo auðvitað lítil og ísköld kók með röri fyrir varalituðu dömurnar. Pössuðum alltaf upp á það að kókið væri vel kælt og rörin rauð. Og við pössuðum líka upp á það að smakka vel á því sem við vorum að selja því það er eitt af lykilatriðum í sölumennsku að vita hvað maður er að selja. Þegar maður er ekki nema 13 ára er svo margt sem maður hefur ekki smakkað.

... karamellur, kúlur og möndlur, popp, kartöflupinnar og saltstangir, ópal, tópaz og nóa, appelsín, malt, pilsner og póló, appolo, sambó og krumma, sígarettur, vindlar og píputóbak, dagblaðið og vísir, sannar sögur og tígulgosinn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home