föstudagur, maí 19, 2006

Breyskir menn

Svona til að bera í bakkafullan lækinn ...

Eyþór Arnalds, nýbúi og oddviti Sjálfstæðismanna í Árborg, fór í sextugsafmæli á laugardaginn var og fékk sér neðan í því. Það væri svosem ekki í þetta blogg færandi nema fyrir þær sakir að frambjóðandinn settist að svo búnu upp í jeppabíl sinn ásamt spúsu og keyrði af stað áleiðis austur fyrir fjall. Vildi þá ekki betur til en svo að á vegi Ökuþórs var staur einn - ekki beint á veginum heldur utan vegar eins og reglur gera ráð fyrir. Frambjóðandinn keyrði semsagt út af veginum og á staurinn. Staurinn bognaði og bíll, en ökumaður og farþegi ekki meira en svo að þau ákváðu að halda áfram leið sinni en skipta þó um hlutverk í bílnum. Spúsa settist undir stýri en oddviti braut odd af oflæti sínu og gerðist farþegi. Þau náðu þó ekki lengra en í Ártúnsbrekkuna. Þar stöðvaði þau pólitíið, handtók utanbæjarfólkið og kom þeim fyrir bak við lás og slá.

Eyþór Arnalds gerði stór mistök þetta kvöldið og tilviljun ein hefur væntanlega ráðið því að það var staur sem hann keyrði á en ekki maður eða menn. En, ég á bágt með að dæma hann, breyskur maðurinn sem ég er. Hef þó haldið þá reglu í heiðri að láta bíla alveg eiga sig eftir að ég hef neytt áfengis. Það er skelfilega algengt hér á landi að fólk keyri ölvað; ölvunarakstur er stór meinsemd í íslensku samfélagi. Einn meiriháttar dómgreindarskortur hjá stórum hópi fólks. Talandi um þetta; almennt fyllerí og misnotkun áfengis er eitt stórt vandamál hér á landi. Þetta er spurning um mentalítet: Mentalítetið líður fyllerí og líður líka fyrir það. Allir inn á Vog!

En, hver er þessi Ökuþór Arnalds? Gúrkan er hér með stutta upprifjun.

Eyþór Arnalds er fertugur fýr á framabraut. Ól sinn listræna mann í Vesturbænum í Reykjavík, gekk í Hagaskóla og svo MH held ég. Lærði lengi á bumbufiðlu og spilaði klassík, en safnaði svo hári, horggrannur strákurinn, og fór að spila popp með Björku og „hafði aldrei séð aðra eins frystikistu“. Tók þátt í leiklistarstarfi og var drífandi í fjöllistahópnum Veit mamma hvað ég vil? Svo var Todmobile sett á stað og skröltir víst enn. Svo gerði strákur hlé á poppstandinu, smellti sér í jakkaföt, kom sér upp alvöru bumbu og fór í forstjóraleik með galdrastrákunum í Oz. Þegar það ævintýri allt var úti fór okkar maður bara að braska með kaffi og timbur í austurlöndum og hellti sér út í borgarpólitík.

Stútur undir stýri, er úti framboðsævintýri? Nei, það held ég ekki. Fólk kann að meta breyska menn og sérstaklega þá sem kunnna að skammast sín. Frá því að Ökuþór steytti á staur og rankaði við sér hefur hann, að því er virðist, haldið rétt á sínum spilum, unnið vel úr krísunni, valið orð sín vel; bæði þau sem verður að segja og hin sem gott er að sleppa - og umfram allt verið auðmjúkur og sýnt það að hann kann að skammast sín.

Sá magnaði félagsskapur SÁÁ stendur fyrir árlegri sölu sinni á álfinum þessa helgina. Ég veit um einn vænlegan kandídat í sölumennskuna í Árborgarskýri.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home