föstudagur, maí 19, 2006

Silvia Night er alveg allright.

Silvía okkar Nótt tróð upp í Aþenuborg í forkeppni Evrópsku söngvakeppninnar í gærkveldi. Hún var gorgeous, silly og sæt, en allt kom fyrir ekki; það var púað á hana áður en hún byrjaði að syngja og það var púað þegar hún hætti. Hún hefur trúlega troðið fullmörgum grískum um tær. Vakti athygli mína að kóreograferingin og látbragð Silvíu var mun ýktara en áður og svo sennilega til þess að undirstrika enn frekar að þetta framlag okkar átti að vera GRÍN.

Get ekki annað en dáðst að leikkonunni að hreinlega nenna að standa í því að vera í karakter í heila viku; byrja dag hvern á því að koma sér í gerfið og svo leika hlutverkið daginn á enda. Silvía varð grófari eftir því sem frægðarsól hennar reis. Það finnst mér alveg rökrétt. Það var kannski ekki alveg pólitískt rétt að gefa skít í Grikkina, en einhvern veginn passaði það týpunni alveg og því finnst mér leikkonan hafa sýnt dirfsku og dug. Fór alla leið án málamiðlana (fokk, jú, sleppti því að vísu).

Ekki sammála kerlingunum sem kvarta undan því að Silvía Nótt sé slæm fyrirmynd barnanna. Kommon, var þessi fígúra einhvern tímann góð fyrirmynd. Það þarf að útskýra karakterinn Silvíu Nótt fyrir börnum. Börn hrífast jafnt af táknum hins slæma sem hins góða. Glanni gæpur er ekki beint fyrirmyndar drengur. En, það vita börnin og finnst hann samt flottur, a.m.k. pínu spennandi (karakterinn serm gerir þættina um Latabæ þess virði að horfa á þá).

Ég er ekki viss um að leikkonan Ágústa Eva hafi sett markið á sigur í Aþenu. Þá hefði hún tæklað þetta öðruvísi. Öllu heldur virðist hún hafa sett sér það að fanga athygli fjölmiðlunga og tókst það all rækilega. Ég er svona nokkurn veginn viss um að Silvía Nótt fái fjölmörg tilboð um framkomu í sjónvarpsþáttum og fríksjóvum álfunnar og geti haft meira en nóg að gera næstu misserin. Ef leikkonan nennir þá að standa í því.

Evróvisjón er fríksjóv. RÚV gæti nú aldeilis sparað sér peninginn sem það tímir hvort eð er ekki að eyða með því að fá fjöllistamanninn Ladda til að flytja fram-lag okkar næst. Þá væri hægt að halda undankeppni þar sem Laddi flytti sama lagið í svona sirka tíu gerfum og pöpullinn veldi úr; hvort við sendum Elsu Lund, Eirík Fjalar, Skúla rafvirkja, Þórð eða einhern annan úr persónugalleríi meistarans. Laddi er líka lagasmiður góður svo hann færi eflaust létt með að setja saman eitt lag. Svo verður Laddi sextugur á næsta ári.

En, í guðanna bænum ekki Geir Ólafs. Það væri of fríkað.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home