þriðjudagur, september 26, 2006

Buxur, vesti, brók og skór

Í fatnaði hef ég átt mín tímabil. Gráa, svarta og brúna. Er á því brúna núna. Ég hef og átt mín raffíneruðu tímabil, hippísku og pönkuðu. Klæðasmekkur minn hefur eiginlega þróast öfugt eins og viskídrykkjan; fimmtán ára komst ég upp á lagið með að drekka skosk viskí jafngömul sjálfum mér en hef síðan þá verið að þróa með mér smekk fyrir hrárri og ófínni börbónum. Fyrsta árið í Menntaskólanum í Reykjavík gekk ég með bindi upp á hvern dag og í þykkum ullarfrakka. Svo losaði ég um aftur.

Upp úr tvítugu fór ég að klæðast skyrtum og vestum af afa mínum með vasaúr í keðju í stíl. Alltaf í jakka við. Gallabuxur hafa ekki verið mín deild, en átti þó mitt gallaskeið í gallajakka og allt. Thor hefur jú verið mikill gallakarl og alltaf flottur. Stundum hefur maður því verið að reyna, apa, orðið fyrir áhrifum. Þannig er þetta bara.

Brúna tímabilið hefur varað í u.þ.b. tíu ár. Sennilega þó fimmtán. Öll mín föt eru brúnlit, skór og yfirhafnir líka. Konunni minni finnst þetta allt saman sama drullan og sérlega ósexý. Samt eigum við tvö börn. Dóttirin er á sínu bleika og strákurinn kominn á sitt brúna. Konan oft í svörtu.

Einn er sá litur sem ég held mest upp á en klæðist eiginlega aldrei. Þetta er dökk-appelsínugulur litur, eiginlega karrígulur. Uppgötvaði litinn þegar ég sá Evu Marie Saint klæðast ullardragt í þessum lit í einu atriði í kvikmynd Hitchcocks, North by Northwest. Ég kiknaði í hnjáliðunum og slefaði, svo allrar háttsemi sé gætt. Sá einu sinni nákvæmlega eins dragt í búð einni í Róm og sé eftir því enn þann dag í dag að hafa ekki keypt hana handa konu minni. En, hún hefði aldrei farið í hana. Þolir ekki karríið frekar en kúkabrúna litinn. Ég slefa samt.

Jónas Hallgrímsson taldi einu sinni fram fötin sín, en lét ógetið um lit þeirra:

Buxur, vesti, brók og skó,
bætta sokka, nýta,
húfutetur, hálsklút þó,
háleistana hvíta.

1 Comments:

At þriðjudagur, 26 september, 2006, Blogger kp said...

Ætla að prófa að setja kommentakerfið aftur á, þó ekki væri nema fyrir sjálfan mig að bæta inn post scriptum o.þ.h.

 

Skrifa ummæli

<< Home