fimmtudagur, ágúst 24, 2006

YouTube.com

Alltaf er ég að átta mig betur og betur á því hversu óendanlega ótrúlegt fyrirbæri netið er. Veraldarvefurinn. Ég er nýbúinn að uppgötva stærsta vefvarpið á netinu sem heitir YouTube.com. Þar er sko hægt að spæna upp nokkrum klukkutímum á nótæm. Nótæm. You Tube er ókeypis geymslu- og miðlunarvefur fyrir myndefni; allt frá nokkurra sekúndna myndskeiðum upp í heilu sjónvarpsþættina, bíómyndirnar.

Þarna er semsagt hægt að geyma kvikmyndirnar sínar og deila með öðrum ef vill. En, myndefnið þarf ekki endilega að vera hreyfimyndir því myndskjölin geta innihaldið slædsmyndasýningar og þess háttar eða bara hljóð/tónlist og myndlausan skjá.

Þetta er svosem engin splunkunýjung, en einfalt viðmót vefjarins og notagildi er það sem gerir YouTube staðinn til að hanga á. Þarna er auðvelt að upplóda myndum og fylgjast svo með því hvort einhver hafi gefið sér tíma til að skoða efnið og jafnvel skilja eftir komment. Vefurinn þessi er orðinn að samfélagi fólks víða um hnöttinn sem segir frá lífi sínu (skálduðu eða sönnu) í myndum, sem kallaðar eru vefblogg, stuttmyndum og öðrum skringilegheitum. Þessar myndir kalla síðan á viðbrögð annarra í vefsamfélaginu, misjafnlega mikil að sjálfsögðu og misvönduð.

YouTube vefurinn auðveldar fólki þetta samtal með því að bjóða því upp á að upplóda mynd sem andsvar/viðbrögð við myndinni (e. response). Dæmi: A setur inn mynd sem heitir „Hundurinn minn Kátur“. B er ekki alveg að fíla þessa mynd, gerir eina sjálfur og setur hana inn á vefinn sem andsvar. Myndin hans heitir þá „Re: Hundurinn minn Kátur“. Og svo koll af kolli. (Þetta, fyrir utan það að fólk getur gefið viðkomandi mynd einkunn, skrifað umsögn o.fl.)

Þarna er allskonar fólk að gera allskonar hluti. Mest yngra fólk, en samt er einn vinsælasti Youtubarinn enskur afi á áttræðisaldri. Fólk talar beint í vélina, birtir stuttmyndir, ferðamyndir, sketsa, töfrabrögð. Bara allt. Og vefurinn er að sjálfsögðu kominn með sína eigin óháðu fréttastofu (og fleiri held ég) þar sem sagt er frá vinsælustu og áhugaverðustu vefbloggurunum. Fólk tekur upp myndirnar sínar á vídeóvélar, venjulegar myndavélar og jafnvel farsíma. Hef ekki tíma fyrir meira blogg, þarf að taka stöðuna á YouTube ...

Jú, eitt að lokum. Það sem gerir YouTube líka að þessari snilld sem hann er, er að stuttur kóði hvers myndbands birtist með og sem auðvelt er að afrita og líma t.d. inn á bloggið sitt og ... volla, maður er kominn með sjónvarp í bloggið!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home