miðvikudagur, september 13, 2006

Kvennafar í Þingholtunum

Ég hóf skólagönguna í Austurbæjarskóla og gekk í þann skóla frá sex til tíu ára aldurs. Fimm ár. Gekk ýmist úr Hlíðunum eða Þingholtunum, að austan eða vestan, frá mömmu eða pabba. Og þetta gekk bara vel, takk fyrir. Ég á góðar minningar úr Austurbæjarskóla.

Margar minningar tengjast bralli ýmislegu með honum Benna. Hann átti heima á Laufásveginum og ég í Þingholtsstrætinu (þegar ég var vestanmegin). Þegar hugsað er til baka þetta langt aftur kemur það manni á óvart hversu snemma litlir strákar byrjuðu að pæla í stelpum.

Hún var með hvítt sítt hár, engilfríð og ekkert minna en Agnetha Fältskog Austurbæjarskóla. Og hefði örugglega farið langt á sínum fagurgala í Ídoli og Stjörnuleit hefði því verið að dreifa á þeim tíma. En, nei, þarna nægði það átta-níu ára drengjum að draumadísin léki Maríu mey í jólaleikritinu. Hún var María Agneta og við dáleiddir. Fjárhirðar úti í haga og opinberunin í nánd.

Hún Agneta okkar átti heima í litlu hvítu húsi í Þingholtunum. Í risinu átti hún sér herbergi og bjó með hvítum og bleikum böngsum - ímyndaði ég mér því aldrei komst ég þangað inn og þráði það samt svo mjög. Við Benni vorum komnir með svona sirka hvolpavit eða vissum í það minnsta hvað við vildum. Og það sem við vildum var ein stelpa úr bekknum okkar, sama stelpan; Agneta. Við vorum báðir ástfangnir af sömu stelpunni og sáttir við að takast á um hana saman. Fengum kvöldgönguleyfi frá foreldrum og komum okkur upp merkjakerfi: Þegar við fórum út og vitjuðum húss Agnetu þá var það að „fara á KF“.

KF stóð sem sagt fyrir kvennafar en þýddi samt það að við vildum fara á fjörurnar við eina stelpu sem var ekki einu sinni að finna í fjöru og við algjörlega í kafflóði. Fórum samt á „KF“ og breimuðum fyrir utan litla hvíta húsið hennar Agnetu. Kvöld eftir kvöld snigluðumst við utan við húsið hennar, gengum fram hjá því og aftur. Ekki minnist ég þó þess að sú yndisfríða hafi látið svo lítið sem bæra eitt gluggatjald, veifa til okkar hangandi hendi, látið svo lítið sem að veifa til okkar einum bleikum bangsa frá kvistglugga sínum.

Við gripum til okkar ráða. Við þurftum að komast í færi við hana Agnetu okkar og hvað var heppilegri vettvangur til þess arna en bekkjarpartí, diskótónlist og orkumiklir gosdrykkir. Þetta gæti ekki klikkað. Benni bjó í stóru húsi með víðum og loftmiklum sölum sem voru tilvaldir til veisluhalda. Fengum skemmtanaleyfi af mömmu Benna gegn því að við tækjum til í öllu húsinu fyrir og eftir. Man eftir okkur Benna fægja hurðarhúna og safna ryki í fjaðrakúst.

Við skipulögðum partíið. Skipulögðum hvernig við ætluðum að bera okkur að í því kossaflensi og fangbrögðum sem við áttum í vændum. Af einhverjum ástæðum man ég ágætlega eftir undirbúningi þessa mikla bekkjarpartís en eiginlega ekkert eftir partíinu sjálfu. Það gerðist líka ekkert. Ekkert. Við vorum þá bara litlir strákar með alltof stóra drauma. Kærustur og kossar komu seinna. Einbeittum okkur þar eftirleiðis að hljómsveitarstússi uppi á háalofti hjá Benna og njósnum um vafasama kalla í Þingholtunum. Kannski meira um það seinna.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home