miðvikudagur, september 20, 2006

Vefblöð

Fjölmiðlafyrirtækið 365 hefur nú um nokkurt skeið boðið vefgestum á móðurvef fyrirtækisins, Vísi.is, upp á þá fínu þjónustu að geta lesið fríblöð þeirra á netinu. Fyrir skömmu bættust svo sölublöðin við sem hægt er að kíkja í ókeypis þetta viku eftir útgáfu.

Nú hafa vefumsjónarmenn Vísis bætt um betur og tekið í gagnið nýtt viðmót fyrir vefblaðalesturinn (á bara við um Fbl. fyrst í stað sýnist mér). Þetta nýja vefviðmót getur bara ekki verið betra því svona á þetta að vera: skýrt, einfalt og læsilegt og næstum því eins og okkur finnst flestum best, þ.e. að lesa blað sem opnu en ekki stakar síður.

Annars merkilegt hvað vefurinn, sem glænýr og ómótaður miðill, tekur mikið mið af prentinu. En svona hefur þetta verið í þróun tölvuviðmóta: Apple byrjaði með gluggakerfið og skjáborð sem er hugsað sem skrifborð (desktop), o.s.frv. Allt miðað við gamla heiminn.

Nú þarf Mbl.is að taka sig saman í andlitinu, en fyrir löngu er orðið tímabært að sá vefur uppfæri viðmót sitt og virkni. Það er ekki nóg að bjóða upp á fréttamyndskeið og blogg og ég veit ekki hvað. Viðmótið skiptir mjög miklu máli og það er bara ekki í lagi á Mbl.is. Changes?

... ... ...

Verð svo að nýta mér afritunarmöguleikann í þessu nýja viðmóti (var ekki alltaf hægt í Adobe) og birta hér ögn úr grein Björgu Evu Erlendsdóttur fréttakonu á RÚV, eða öllu heldur brot úr opnu bréfi hennar til Róberts Marskálks á Nánast Feigu Stöðinni:

Fjölmiðlar framtíðarinnar verða vonandi ekki eins og NFS. Það er ekki frjáls fjölmiðill sem á allt sitt undir Kæra Jóni og þarf að biðja hann um náðun ef dauðadómur er kveðinn upp. Frjáls fjölmiðill hefur trygga afkomu, óháða fréttamenn, gagnsæi í launum. Tilvera hans byggir á því að almenningur í landinu á rétt á hlutlægri, óháðri umfjöllun um hvaðeina sem máli skiptir í samfélaginu.

En viðburðir síðustu ára í fjölmiðlaheiminum sýna okkur fyrst og fremst að fjölmiðlar verða sífellt tannlausari og lélegri í þeim ólgusjó óvissu, fjárhagserfiðleika og afskipta fjármála- og stjórnmálamanna sem þeir hafa siglt að undanförnu. Það sem þarf til að fjölmiðill geti verið góður er staðfesta í rekstri, góðir stjórnendur, þekking, reynsla, viðunandi vinnuumhverfi og síðast en ekki síst fagleg samstaða fjölmiðlafólks.

Heyr, heyr. Fólk á að standa saman, standa vörð um réttindi sín og heilbrigt starfsumhverfi. Og launin maður. Björg Eva nefnir í greininni að fréttamenn hafi á bilinu 260-300 þús. á mánuði fyrir fullt starf. Þetta eru fótgönguliðarnir í fjölmiðlun á Íslandi, fólkið sem aflar fréttanna sem skipta máli. Á meðan NFS og Kastljós keppast um að bjóða í stjörnuandlit hvors annars.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home