föstudagur, september 15, 2006

Spjall / Spjöll

Nú les ég aftur og aftur ranga notkun á orðinu „ártíð“. Hingað til hef ég staðið í þeirri meiningu að ártíð sé n.k. dánarafmæli manns. Dæmi: Jón dó árið 2000 og árið 2005 minntust ættingjar hans fimm ára ártíðar hans. Nú bregður svo við í skrifum blaðamanna og fleiri að ártíð er notað um afmæli manna og atburða. Dæmi: „Boðið verður upp á leiðsögn um grafhvelfingarnar í tilefni af 500 ára ártíð safna Vatíkansins.“ (Fbl., 15. sept. 2006) Hér er ekki bara að orðið ártíð sé í röngu falli heldur ætti hér að standa „afmælis“. Ekki var það betra þegar Gallerí Fold auglýsti um daginn sýningu í tilefni „árstíðar“ tiltekins listamanns (sic!). Hvar er fólk þegar það er að skrifa?

Ég er að fara að sjá dansleikhús Pinu Bausch á sunnudagskvöldið og hlakka ógeðslega til. Ég er það ignorant í þessum geira að hafa ekki heyrt um þessa merku konu og leikhús hennar fyrr en núna í vikunni að þeir fjölmiðlar sem ég „neyti“ hafa verið uppfullir af lofi og mæringu á hennar miklu list. Ég tek mark á málsmetandi fólki og ætla ekki að láta hana Pínu fara fram hjá mér. Ekki pínu og ekki pons.

Já, við erum víst neytendur í öllu. Fjölmiðlaneytendur og menntunarneytendur og ég veit ekki hvað. En, ég bara neita þessu, neyti míns neytandaréttar til að neita því að vera neyddur til þess að vera fjölmiðlaneytandi. Hvað er ég þá? Tuðari?

Hvað er maður án orðabókar? Í orðabókinni minni er borgin Accra í Gana (sögð í Sýrlandi) nefnd Akursborg. Það finnst mér gott nafn og legg hér með til að Akranesbær fari þess á leit við bæjarstjórann þar að komið verði á vinarbæjartengslum. Áður en Akureyringar hlaupa til. Annars merkilegt hvað hugsandi menn voru hér áður fyrr ófeimnir við að íslenska heiti erlendra borga og bæja. Þótti sjálfsagt. Er og sjálfsagt og miklu skemmtilegra. Síena á Ítalíu var t.d. kölluð Langa-Sín. Þetta er gott.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home