sunnudagur, september 10, 2006

Rokland

Árið fór vel af stað. Ég las Rokland Hallgríms Helgasonar fyrstu dagana í janúar og hafði gaman af. Hef síðan ætlað að blogga um þá góðu bók. Nú er það loksins komið fram sem öllum ætti að vera ljóst við lestur hennar; nefnilega það að bókina á að kvikmynda.

Rokland er vissulega vel fallin til kvikmyndatöku. Svo vel að það er eiginlega ekkert handrit að skrifa. Bara að laga hinn endasleppa endi og bókin er tilbúin í töku. Bara eftir að kasta í hlutverk þeirra litríku persóna sem bókin hefur að geyma - jú, stundum eilítið einlita, en samt safa-ríkar. Hér þarf að vanda valið.

Bókin er mjög visúal, enda skrifuð af myndlistarmanni af bíókynslóð Tarantínós o.fl. Það á eiginlega ekki að vera hægt að klúðra þessari mynd. Bara spurning hvort bloggið verði ekki orðið svolítið lastyear þegar myndin kemur út. Nú myndbloggar fólk, en það er ekki Bödda. Hann er maður hins ritaða orðs. En samt, kannski er það soldið Böddalegt að sitja framan við tölvuna og vefkameruna og láta vaða á súðum.

Var ekki alveg sáttur við lúkkið á Bödda í sögunni; taglið og það. Passaði einhvern veginn ekki við 19. öldina í honum. Sé hann frekar fyrir mér eins og Daníel Ágúst er þessa dagana. Já, þannig er Böddi einhvern veginn; forn án þessa þó að vera kúl. Böddi er nefnilega lúði. (Nei, Danni er ekki lúði. Tilgerðarlegur já, en ekki lúði).

Sé það fyrir mér að auðvelt verði að sækja þýskt fjármagn í myndina. Fyrir það fyrsta hefur Hallgrímur selst þó nokkuð vel í Þýskalandi, held ég, og svo er Böddi náttúrlega maður þýsku 18. og 19. aldar meistaranna. Vona að handritshöfundar fari ekki að breyta honum í enskumann eða eitthvað þaðanaf verra og útþynntara. Rokland getur nefnilega orðið helvíti góð mynd og sérstaklega ef sagan fær að halda sínum þjóðlegu einkennum. Þannig hefur hún alþjóðlega skírskotun.

(E.s. Ég get verið hræðilegur lygari. Ég var allan janúarmánuð að lesa Rokland. Ég er seinlæs með afbrigðum, en líka vegna þess að ég smjatta á góðum texta.)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home