laugardagur, ágúst 05, 2006

Kombakk

Síðustu misserin, árin, jafnvel áratugina - ég man ekki eða vil ekki muna hversu langt aftur þetta nær - hefur það tíðkast í voru vestræna samfélagi að vekja upp gamla krafta í þeirri von að þeir verki á þreyttar sálir.

Við lifum á tímum drauga og afturganga. Ef það gengur og gengur vel er von til þess að það gangi aftur og jafnvel betur en vel. (Og ef afturgangan er sökksess má kannski draga draug upp úr þessum og kalla'ann kombakk).

Einar nælonsokkur er ekki bara hjartarknúsari heldur líka hjartahnoðari, endurlífgari; sá sem ræður um líf og dauða poppara, segir „popp“ eða „flopp“. Hann er álfadís í nælonsokkum vædd einum gildum töfrasprota sem hún bregður á löngu steindauða poppara og vúpps!, Sumargleðin endurvakin. Hemmi í ham. Það var lagið!

Afturgöngurnar eru misintresant. Stuðmenn koma aftur og aftur og hafa verið að koma aftur og aftur sjötíuogeitthvað, áttatíuogietthvað, nítíuogeitthvað og tvöþúsundogeitthvað. Afturgöngur í stanslausu stuði. Man eftir stróra kombakki Stuðmanna. Ég var sirka nýorðinn unglingur að skilgreiningu. Þeir voru svona um það bil að byrja á eða ljúka tökum á meistaraverkinu Með allt á hreinu. Enginn hafði heyrt lögin en boðað var til tónleika í porti Austurbæjarskólans. Óli vinur minn sagði mér að þetta væru tónleikar sem við mættum ekki missa af. Og þarna tókum við til við að tvista í fyrsta skipti og stóðum þétt saman að íslenskra karlmanna sið. Þetta var á öðru ári níunda áratugar liðinnar aldar og hafði hvorki heyrst né frést til Stuðmanna síðan um miðjan áratuginn þar á unda. Ekki nema von að afturganga Stuðmanna hafi verið sensasjón. Ísland þurfti á Stuðmönnum að halda. Frelsuðu andans menn úr síðpönki og nýgamallri bylgju. Síðan þá hafa Stuðmenn verið að koma og bakka.

Ég er kominn aftur eftir allt of langt sumarfrí. Það er kombakk. Börnin fara að snúa aftur í skóla einu sumrinu ríkari. Á vorin kemur lóan. Kombakk.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home