miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Súpuveður

Gærdagurinn byrjaði bara ágætlega og lofaði góðu. En svo omventi Kári og setti í suðvestan. Og þá var komið rok. Tilvalið veður til að fara út að hlaupa og hlaupa meðfram sjónum með særokið í andlitið. Að því búnu heim í svuntuna, enda komið langt fram yfir kvöldmat á vísitöluheimilinu og því löngu orðið tímabært að karlinn gerði nú eitthvert gagn á meðan Hildur mín situr sveitt og þreytt yfir bókum og fartölvu. Er nefnilega byrjuð í meistaranámi með fullri vinnu.

Nema hvað, ekkert til í kotinu. Hvað var þá til bragðs að taka svo bragð yrði að og mettun í maga? Jú, í skál úti í horni lúrðu fimm laukar. Nú var komið að því að laga lauksúpuna sem ég hef lengi ætlað mér að gera. Það var einmitt lauksúpa sem hrakinn hlauparinn og fjölskylda hans þurftu á að halda þetta kvöldið í þessu sannkallaða súpuveðri.

Ég man ekki hvar og hvenær ég fékk síðast lauksúpu. En, í þau allt of fáu skipti sem ég hef fengið lauksúpu um ævina hefur mér þótt hún góð. En þessi súpa mín í gær var ekkert lík því lauksúpubragði sem ég geymi í minningunni. Hef trúlega verið full örlátur á timjanið ... veit ekki. En, ég er staðráðinn í útskrifast úr lauksúpuskólanum með láði og hef allan veturinn til æfinga.

Súpan gerði okkur nú samt gott og saðsöm er hún. Að uppvaski loknu og kvöldlestri sótti að mér löngun í ís; mig langar nefnilega aldrei meira í ís en akkúrat þegar úti er kalt og veður vont. Svo ég skokkaði út í Ol-ís.

En, hér er sem sagt uppskriftin að þessari lauksúpu minni sem ég hef frá matargúrunni Nönnu Rögnvaldar og er víst ekki alveg akkúrat hin fræga Les Halles lauksúpa. Hér má lesa lauksúpuspjall Nönnu.


Lauksúpa (tómatbætt)

4-5 laukar
3 msk ólífuolía
1 hvítlauksgeiri, pressaður
1 tsk timjan, þurrkað
2 lárviðarlauf
nýmalaður pipar
salt
1,5 l vatn
2 msk tómatþykkni
4 brauðsneiðar (og meira, fyrir þá sem vilja aftur á diskinn)
50 g ostur, rifinn eða skorinn í bita (t.d. sterkur gouda)

Laukarnir afhýddir, skornir í helminga og síðan í þunnar sneiðar. Olían hituð í potti og laukurinn settur út í. Látinn krauma við hægan hita í 10 mínútur án þess að brúnast; hrært öðru hverju. Hvítlauk, timjani og lárviðarlaufum bætt út í og kryddað vel með pipar og salti. Hrært og látið krauma í 5 mínútur í viðbót. Vatninu hellt út í, hitað að suðu, tómatþykkni hrært saman við og síðan er lok sett á pottinn og súpan látin krauma við hægan hita í 20-30 mínútur. Smökkuð til með pipar og salti og lárviðarlaufin veidd upp úr. Grillið í ofninum hitað. Súpu ausið í hitaþolnar skálar. Brauðsneið lögð ofan á hverja þeirra og osti stráð yfir. Sett á grind sem höfð er í miðjum ofni og grillað þar til osturinn er bráðinn og brauðið farið að dökkna á brúnum. Skálarnar teknar út (varlega!) og bornar fram.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home