laugardagur, júlí 15, 2006

Össur

Hvað svosem sagt er og verður um Össur Skarphéðinsson þá er hann skemmtilegur penni og flugbeittur á köflum. Var að lesa pistil hans frá því í gær um Guðna varaformann Ágústsson sem verður sennilega von bráðar var-varaformaður Framsóknarflokksins. Megi sá flokkur líka leggjast af sem fyrst.

Á sama tíma og Össur var að pára inn pistilinn sinn - sem verður að teljast skyldulesning fyrir alla sem á annað borð hafa áhuga á blóðugri valdabaráttu í íslenskum stjórnmálum og nota bene skrifaður af innanbúðarmanni sem sjálfur mátti þola að vera kosinn úr embætti formanns - stóð hann í skeytasendingum við þann sem hér skrifar og var á miklu flugi.

Ég sendi honum nefnilega póst og falaði eldri pistil sem inniheldur ferðasögu um Kapríferð þeirra Einars Odds til birtingar í Rómarvefnum. Hann hélt nú já að það væri í lagi og sagði: „Hófstillt frásögn af gleðiferð okkar Einars Odds verðskuldar að fara sem víðast.“

Svo fór ég eitthvað að tala um þokkabombuna Anítu Ekberg sem lék í La dolce vita Fellinis, en Össur minnist á myndina í pistlinum. Þá þetta: „Haltu lostafullum hugsunum frá þér þegar sænska kynbomban fer í brunninn [Fontana di Trevi]. Það kom miklu róti á unglingshuga minn - enda var ég þá á aðventistaskóla og bað Guð á hverjum degi að forða mér frá syndum. Það fór einsog það fór. Ég lenti í pólitík.“

En aftur að Guðna og viðtalinu við hann í Kastljósi sem varð Össuri efni í hreint makalausan pistil. Ég sá þetta sama viðtal og tók eftir því - annað ekki hægt - hversu sneyptur og beygður maðurinn var; hann horfði meira á borðið sem var á milli hans og spyrilsins en spyrilinn sjálfan. En, sem sagt, skora á alla að lesa Össur, pistillinn er hér og svo um Kapríferðina á Rómarvefnum. Þið sem nennið að sökkva ykkur í þetta þá er hér grein í Rómarvefnum sem ég skrifaði um Trveví(gos)brunninn. Góðar stundir.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home