mánudagur, október 02, 2006

Áhlaup á Esjuna

Hittumst á miðri leið við Esjurætur svilarnir svölu, Halfdán og ég. Ætluðum að skokka á fjallið fríða og vera snöggir að því. Veðrið hefur gert vel við okkur síðustu vikurnar og ekki var þessi fyrsti dagur októbermánaðar síðri; heiður himinn, sólfar og hiti, nettur skýjabakki yfir Suðurnesjum svona upp á lúkkið.

Lögðum á brattann og skokkuðum stallana upp, upp, upp, eins og unglingar í leitum. Ekkert fé á fjalli en múgur og margmenni nýfrjálsra Íslendinga að viðra andann í herlausu landi.

Esjan er brattari en mig minnti og fljótt ég mæddist. Fljótt, fljótt, fljótt ég hratt frá mér hugsun um upp-gjöf, heldur skpti um gír og setti í þankagang. Útivera og hreyfing gefur tæra hugsun; það er því eins gott að vera með hugann við hugsunina. Hugsaði margt og lét svo móðan mása mæðinni að út blása.

Upp við komumst, kvittuðum í bók og settumst á stein: Fallegt er landið, fallegar er konurnar okkar og falleg eru börnin. Grétum. Tveir hrafnar sátu á hljóðskrafi á syllubrún. Hálfdan, sagði ég, þetta eru sömu hrafnarnir sem fylgdu okkur Jóni Knúti upp Akrafjall snemma í vor. Nú, hvernig sérðu það? Jú, svartir eru þeir og segja líka krúnk.

Eftir að upp er farið, fer maður niður. Það er jú siður.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home