mánudagur, nóvember 07, 2005

Bjartsýni / svartsýni

Ragga Gísla er nýr handhafi Bjartsýnisverðlauna ... uh, ekki Bröstes, heldur Alcoa eða Alcan eða hvað þessi álfyrirtæki heita. Ég hef alltaf verið frekar jákvæður (bjartsýnn) í garð þessara óræðu verðlauna og sérstaklega þegar það var Dani að nafni Bröste sem veitti þau. Á þeim mæta manni veit ég eiginlega ekki meiri deili á hvað þá heldur hvers vegna hann hóf að útdeila verðlaunum til bjartsýnna Frónverja. Upphefðin kemur oft erlendis frá og sú er sæt.

Óræð verðlaun segi ég, því auðvitað er bjartsýnin óræð og verðlaunin sem ætlað er að styrkja hana, okkur og þá sem þau hljóta. Það sem gerir þessi verðlaun einstök er að í þeim er falinn möguleikinn á að hylla og verðlauna fólk sem hefur kannski ekki ennþá unnið sigra en hefur kannski með staðfestu sinni, einurð og BJARTSÝNI heillað samborgara sína. Þess vegna finnst mér að þessi verðlaun ættu umfram önnur að vera tileinkuð þeim sem fara hljótt en sem vert er að minna á, vekja á athygli og styrkja. Ragga, minn gamli tónlistarkennari úr Vesturbæjarskólanum, er trúlega vel að þessum verðlaunum komin, en fellur kannski ekki alveg undir þessa skilgreininga mína. En, hei, þetta eru ekki mín verðlaun. En, flott samt sem áður.

Svartsýnin verður trúlega hvað myrkust og dýpst hjá þeim sem kljást við þunglyndi og enn alvarlegri geðsjúkdóma. Sem betur fer er umræðan um geðsjúkdóma komin á það plan að við erum farin að tala um þá, en svo virðist mér sem sumir geðrænir kvillar séu flottari en aðrir. Það þykir til að mynda ekkert tiltökumá lengur fyrir þunglynda að gangast við sínum sjúkdómi, en lengra í land trúi ég að eigi þeir sem glíma við enn alvarlegri vandamál eins og geðklofa.

Fáa menn met ég í stíl og efni sem Þráin Bertelsson, kvikmyndaátör og rithöfund. Hann glímir við þunglyndi og hefur lýst því í bók og pistlum. Nú síðast í Fréttablaðinu laugardaginn 5. nóv. Þráinn er maður sem mér finnst falla vel að verðlaunum kennd við bjartsýni.

E.s. Ég vil bara taka það fram að Ragga er vel að verðlaununum komin, en guð minn almáttugur hvað ég er feginn að t.d. Gísli Örn hafi ekki fengið þau. Sá er jú duglegur en þeim manni er nú búið að hossa nóg!

1 Comments:

At þriðjudagur, 08 nóvember, 2005, Anonymous Nafnlaus said...

Þetta var skemmtilegur pistill.
Jón.

 

Skrifa ummæli

<< Home