miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Dæmi um góða latínu

Einhver gáfumaðurinn sagði að tónlist skiptist í tvo flokka: Góða tónlist og vonda. Ég hlusta á allt og helst minna á það síðarnefnda.

Ég hef lengi verið svag fyrir dægurtónlist sjötta og sjöunda áratugarins, þessari hjálfhallærislegu fiftís og sixtís tónlist. Þegar Björk og Guðmundur Ingólfsson slógu saman í hina frábæra hljómplötu Gling gló þá var ég mættur á tónleikana og keypti náttúrlega diskinn þegar hann kom út.

Á sjöunda áratugnum var latíntónlist áberandi. Einhver sú mesta latíndrottning sem ég þekki er Eydie Gormé, söngfugl frá Bronx með fjölþjóðlegan bakgrunn sem minnir mann á Ellý í ellefta veldi. Ég á einn disk með Eydísi þar sem hún syngur með hinum mexíkósku Los Panchos suður-ameríska standarda og hefur sú plata verið í miklu uppáháldi á heimilinu síðan Hildur kom með hana í hús alla leið úr Karíbahafi árið 1996.

Svo skrifar Sabrina "soyarra" frá Los Angeles árið 2004 á Amazon.com um plötuna Canta en Español með Eydie og Los Panchos frá árinu 1964:

„ Eydie Gorme is decended from Sephardic Jews, whose traditional language is a form of 15th century Spanish known as Ladino, so this foray into South American/Caribbean/Mexican Spanish songs is not entirely surprising. This was the soundtrack to most of my family's parties and dances, so it has special meaning for me. Gorme's voice is flawless in the typical 50's/60's Gogi Grant/Vikki Carr manner, her accent is pretty good, and Los Panchos provide an excellent backdrop to her singing. In all, this is a must for any Cuban/Mexican/Argentine summer party. “

Þetta með partíin geta börnin mín líka vel staðfest. Sumar plötur eru bara partíplötur og verða spilaðar aftur og aftur. Svo eigum við safndisk með Los Panchos og hann er sko ekki leiðinlegur. Fyrir stuttu eignaðist ég svo safndisk með Erlu Þorsteins og hann fór í nokkra jólapakka síðustu jól. Í þessum gömlu en sígildu lögum og flutningi þeirra er falinn einfaldleiki og einurð sem kannski er minna af þessa dagana.

PLÖTUDÓMUR
Canta en Español með Eydie og Los Panchos frá árinu 1964: Fimm safaríkar gúrkur af fimm mögulegum.

E.s. Að gefnu tilefni verð ég að segja það að ég hannaði ekki þetta ágæta umslag Eydie Gorme. Þið sem viljið hins vegar skoða umslagahönnun mína getið t.d. skoðað umslögin sem ég hannaði á sínum tíma fyrir strákana í Pink Floyd, þ.e. Dark Side of the Moon og svo Wish You Were Here. Bernskubrek, en samt flott.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home