miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Nick níundi

Kominn er níundi nóv og sá dagur á sér nokkra sögu. Haustið 1989 fór ég ásamt hljómsveit og mörgu öðru góðu fólki til Sovét. Þá hét þetta allt saman Sovét sem nú heitir Rússland og ég veit ekki hvað. Nema hvað, við, hljómsveitirnar Otto og nashyrningarnir og EX, byrjuðum í Pétursborg sem þá hét að sjálfsögðu Leníngrad og ... Heyrðu, ég ætlaði að tala um níunda nóv!, það er daginn sem allt hrundi. Múrinn þar eð, og þetta var allt einhvern vegin eins og rökrétt afleiðing af heimsókn okkar þarna austuryfir. Verð að skrifa um seinna.

Hitt sem tengir mig við daginn er minn frægi bróðir í Amríku; Nick Lachey. Hann á afmæli þenna dag og man ég það alltaf vegna hins fyrrnefnda, þ.e. hruns Berlínarmúrsins. En, það er gaman að nefna frægt fólk. Og var ég búinn að nefna það að hans kona er Jessica Simpson, dóttir Hómers og Marge?

Nick er frábær strákur, við deildum herbergi þetta ár sem ég dvaldi með þeim í Cincinnati. Hetjan hans var og er víst enn Bruce Willis. Þeir hafa nú vísast hist. Ég var nú hins vegar hrifnari af henni Cybillu hinni kindarlegu. Við Nick hittumst svo aftur 1992 þegar ég sigldi vestur og heimsótti fólkið mitt á Bjarkarstíg í Cincy. Við fengum bíl lánaðan og keyrðum norður. Nick var ekki nema útskrifaður úr High School og ég er í raun ofurundrandi yfir því að honum hafi verið hleypt í svona ferð. Verið greinilega treyst með sínum íslenska og margreynda bróður. Við keyrðum norður, sem sé. Gistum á ekta mótelum. Lentum í Toronto, Montreal, sáum Niagarafossa, stoppuðum í New York; þaðan keyrt í einum rikk til Cincinnati undir tunglmyrkva. Maí 1992. Svo flaug ég aftur til Boston í mitt skip og aftur vikusigling heim.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home