föstudagur, nóvember 11, 2005

Tarantino rokkar

Kom heim úr vinnu um kl. átta í kvöld og missti því af viðtali við Tarantino í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Vefurinn kom þá í góðar þarfir sem oft áður og gat ég horft á langt og nokkuð gott viðtal þeirra Þóru og Kristjáns við snillinginn. Það getur varla verið hægt að klúðra viðtali við manninn, eins lifandi og skemmtilegur hann er. Spyrlarnir voru dulítið í kappi um að koma sér og sínum spurningum að og Kristján svolítið frekari. En, ekki að næði að skemma.

Það væri náttúrlega að bera í bakkafullan lækinn að fara að tíunda hér hina miklu og mörgu kosti Tarantinos sem kvikmyndahöfundar. Segi bara hreint og klárt að mér finnst það vera mikill heiður fyrir okkur Íslendinga að fá hann hingað í heimsókn og ég varð bara hrærður að sjá hann í settinu í Kastljósi. Því forljóta setti.

Það er hreint með ólíkindum hvað Ísland virðist vera orðið áberandi á heimskortinu; svona eins og mynd þess sé nú upphleypt, neonlituð og á stærð við Ástralíu en samt á sínum ágæta stað mitt á milli Ameríku og Evrópu. Við varla kippum okkur upp við það lengur þegar á fjörur okkar reka stórstjörnur úr lista- eða poppheimunum að gefa okkur af list sinni, vinna hér eða bara heimsækja okkar ágæta land. Það er svo stutt síðan að þetta var bara ekki svona.

Bara ef einhver spyrði þá er mín eftirlætis Tarantino mynd JACKIE BROWN sem er frábær í sínum niðurtónaða stíl versus Pulp Fiction: Fimm stinnar og íðilgrænar gúrkur af fimm mögulegum.

Til að sjá viðtalið er hægt að smella HÉR.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home