þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Rokk í Reykjavík

Mig langar í bíó. Mig langar að sjá íslenska mynd. Myndin á að gerast í Reykjavík, nánar tiltekið í Ó Reykjavík, ó Reykjavík, borg íslenska pönkrokksins árið 1981.

DAGUR OG NÓTT - INNI OG ÚTI - REYKJAVÍK
Það er allt að gerast. Úr hverjum einasta bílskúr og skemmu glymur rokk og ekkert helvítis progrokk hvað þá dauðans diskó. Það er sungið, gargað, öskrað - á íslensku. Þetta er ungt fólk og engir meikdraumar. Bara að komast upp á næsta svið, spila eins og maður eigi lífið að leysa og helst brjóta gítarinn sem þú fékkst lánaðan hjá vini pabba þíns sem einu sinni leysti af á gítar á sunnudögum með Dúmnbó og Steina. Helvítis fífl.

Það er sumar í Reykjavík. Rokk í Reykjavík. Melarokk. Hann er á kínaskóm, í snjáðum svörtum leðurbuxum og í slitinni svartri prjónapeysu af pabba. Pabbi var einu sinni flottur.

Það er sumar í Reykjavík. Rokk í Reykjavík. Melarokk. Hún á skalaskóm íklædd ullarsokkum þar undir. Sokkabuxur og pils og síð peysa þar yfir. Hálsmál vítt og breytt: Þér verður kalt, Dilla mín. - Æi, mamma, hættu þessu!

Þau hittast á Melarokki og hviss, bang, þau eru par, eins og Sid og Nancy, Lennon og Yoko. Nei, þau eru bara venjulegt reykvískt par á svörtum skóm á rauðum malarvellinum. Slitin peysa, tjásað hár. Mamma og pabbi eiga nýjan Saab, gengu í Hagaskóla og svo gera þessi. En, það er eitthvað að gerast. Og sumir eru klikk. Reykur í lofti, lím í pokum: Allt fyrir farmiðann burt úr þessum heimi í smá stund. Svo fjarkinn heim áður en mamma verður óróleg. Hún hoppar þegar hún er æst. Ég meina það. Jonee, Jonee: Ég fæddist af því að pabbi vildi það.

Rokk í Reykjavík og allt að gerast. Borgin, Hafnarbíó, Stúdentakjallarinn. Bubbi, Þeyr, Vonbrigði. Yndisleg borg. Hauslausar hænur flögra út um glugga Nýló. Löggan leggur hald á svín. Friðrik þór að mynda Rokk í Reykjavík: Náðirðu þessu? Fínt. Á morgun verðum við í Hafnarbíói og þurfum aðra kameru.

Það er allt að gerast og þú ert að missa af þessu öllu. Hættu í skóla, hann tefur. Farðu að spila, það gefur. Þetta er allt hvort sem er að fara til andskotans ef það springur þá ekki á undan. Killer boogie.

Ást í Reykjavík, meskalilmur. Ég er hrifinn af þér. - Ég líka. Koss. Kemurðu með mér á æfingu má morgun, ég er byrjaður í hljómsveit? Einar Örn: Það er ekki málið hvað þú getur heldur hvað þú gerir.

HLÉ

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home