miðvikudagur, nóvember 16, 2005

RÚV: Hvað er í gangi?

Ég var einn þeirra sem beið allt Kastljósið á enda mánudagskvöldið síðasta að heyra og sjá boðað viðtal við Jón Ólafsson. Flýtti mér að koma börnunum í háttinn og sveik þau um lestur. Viðtalið kom aldrei og borið við tæknilegum örðugleikum. - Yes, sure! hugsaði ég, held meira segja að ég hafi sagt það upphátt. Veit ekki hvað var að en trúlega eitthvað lögfræðilegs eðlis. Horfði svo á viðtalið í gærkvöld og nú aftur óklippt á vef RÚV.

Jón virkar frekar stressaður í viðtalinu og það hjálpar ekki manni sem telur sig þurfa að verja sig. Og af hverju þarf maðurinn að verja sig? Hefur hann gert fólki eitthvað, stolið eins Árni Johnsen, verið dæmdur fyrir meiðyrði eins og Davíð Oddson? Nei, en hann sætir víst enn skattrannsókn og það mál á eftir að gera upp. Af hverju þarf þá maðurinn að verja sig? Jú, maður að nafni Davíð Oddson og varðhundar hans óðu hér uppi í samfélaginu á annan áratug og gerðu ýmsa menn tortryggilega sem þeim ekki líkaði við. Þess vegna þarf Jón að verja sig. Og trúlega er nýja bókin um Jón Ólafsson öðrum þræði varnarrit hans. En, því miður bregður Jón fyrir sig þeirri vörn sem orðin er allt of algeng að dylgja um að maður hafi sagt honum að annar maður hafi sagt að hann hafi heyrt á tal manna eða að enn annar maður hafi sagt honum eitthvað. Davíð hefur notað þetta og er honum líkt, en þetta er Jóni ekki sæmandi.

Jón er umtalaður maður, en það hefur farið lítið fyrir honum sjálfum í fjölmiðlum og því þekkir maður hann ósköp lítið - svona eins og hægt er að „þekkja“ fólk af því einu að sjá það og heyra í fjölmiðlum. En, að því gefnu að Jón vilji bæta ímynd sína, þá myndi ég ráðleggja honum að gera sig sýnilegri í fjölmiðlum og veita fleiri viðtöl. Það ætti að gera hann öllu mannlegri.

... ... ...

Hvað er eiginlega í gangi á RÚV? Hvers vegna í ósköpunum þarf nýráðinn útvarpsstjóri að lesa okkur fréttirnar í Ríkissjónvarpinu upp á hvert kvöld? Ég hefði nú haldið að Páll Magnússon hefði nóg með að vinna sína 9-5 vinnu sem útvarpsstjóri, plús fundi og annað, og ætti ekki að þurfa að lesa kvöldfréttirnar og seinni fréttir kvöld eftir kvöld. Nú spyr ég: Er skorturinn á hæfum fréttalesurum hjá Ríkissjónvarpinu slíkur að útvarpsstjóri verði viku eftir viku að hlaupa undir bagga. Eða, treystir útvarpsstjóri engum betur en sjálfum sér til að lesa fréttirnar?

Nú segir ef til vill einhver: Hvað er að því að útvarpsstjóri lesi fréttir af og til, maðurinn er jú þrautreyndur og þekkt andlit? Því svara ég: Ég held að flestir hafi staðið í þeirri meiningu þegar Páll var ráðinn útvarpsstjóri að honum hafi verið ætlað að helga sig stefnumótun og daglegum rekstri stofnunarinnar, en ekki íhlaupavinnu við dagskárkynningar, fréttalestur og hvað annað hjá RÚV sem hann telur sig geta betur en þeir starfsmenn sem fyrir eru. Hvað næst? Páll í helgarútvarpið á Rás 2? Sendillinn ekki nógu góður, Palli út í sjoppu eftir súkkulaði.

Mér finnst þetta algerlega óviðeigandi og í raun hættulegt fordæmi. Fréttastofa Ríkissjónvarpsins hélt ég að ætti að vera sjálfstæð gagnvart yfirvaldinu, það er að ritstjórnarlegt vald sé í höndum fréttastjórans Elínar Hirst. Ég get hins vegar vel ímyndað mér að nærvera útvarpsstjóra í fréttasettinun dag eftir dag geti haft bælandi áhrif á þá fréttamenn sem þar vinna og þeir fari svona óafvitandi að ritskoða sjálfa sig og sína vinnu útfrá þeirri stefnu sem þeir ímynda sér að Páll Magnússon standi fyrir. Þess vegan finnst mér presens Páls á frettastofunni vera fullkomlega óæskilegur og að hann eigi að láta fréttastofuna í friði.

... ... ...

Ég hef aldrei haft aðgang að Stöð 2 og hef ekkert sérstaklega saknað þess, enda erfitt að sakna einhvers sem maður ekki þekkir. Hef alltaf verið soldill ríkisperri í mér, RÚV-maður ... Hef nú samt svona verið að pæla í því að prófa Stöð 2, en nú eru helstu stjörnur þeirrar stöðvar komnar yfir á RÚV ... svo til hvers? Og ekki fer ég að elta Loga þangað yfir. Enginn saknar hans. Ekki eftir að Bogi fékk sér eins klippingu. Pælið í því: Bogi og Logi; er eitthvað bogið við Loga eða logar í Boga?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home