sunnudagur, nóvember 20, 2005

Góður smekkur

Ég á fallega Apple tölvu sem ég er afskaplega ánægður með. Og ég deili henni með börnunum mínum. Það eru svo sem engir leikir í tölvunni, en þau tefla við hana eða sín á milli og fara svo inn á vef Námsgagnastofnunar og leika uppbyggjandi leiki þar. Allt voða settlegt. Svo var ég með gamlan Impulse! disk í tölvunni með gömlum progdjassi og börnin vekja tölvuna af værum blundi og Journey in Sachidananda Alice Coltrane fer af stað; duldið víraður djass. Ég kem inn á kontorinn minn og býst við að veita börnunum mínum áfallahjálp, en þá segir dóttirin: Pabbi, þetta er falleg tónlist, eigum við ekki að hafa þetta á þegar mamma kemur. Ég kemst við en, nei það væri að æra östöðuga. Ég er fyrir löngu búinn að átta mig á að frídjass, sírudjass og allt það þarf ég að fara með sem mannsmorð hér í húsinu. En, það er gott að vera kominn með tvo vitorðsmenn og samherja. Í djassinum.

... ... ...

Guðrún Helgadóttir hlaut verðlaun í tilefni Dags íslenskrar tungu og gleður það mig mjög. Fáir eiga það eins vel skilið og Guðrún. Guðrún er nefnilega okkar Astrid; það hafa svo margir bent á að Guðrún er málsvari barnanna eins og Astrid Lindgren. Og það er alveg rétt. Ég er nýbúinn að lesa Palla fyrir börnin mín og þótt þau séu allt of ung fyrir bókina þá les ég hversu næm Guðrún er á bernskuna og húmor hennar. Svo varð ég þess heiðurs aðnjótandi að taka þátt í frumuppfærslu Þjóðleikhússins á leikritunu Óvitum eftir Guðrúnu á sínum tima, en þá var ég tíu ára. Frábær reynsla sem ég þyrfti að blogga soldið um.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home