þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Hálflesnir Rússar

Jón Knútur vinur minn bloggar um Dostojevskí. Spjall hans leiddi huga minn að mínum eigin kynnum af Rússunum. Ég hef lesið í nokkrum bókum Dostojevskís en enga hef ég klárað, að mig minnir. Fyrstu bókina las ég sumarið eftir gaggó, þ.e. á sextánda ári, og þá var ekki ráðist á rússneska garðinn þar sem hann er lægstur: Glæpur og refsing.

Ég var norður í landi að leika í mynd sem Ríkissjónvarpið framleiddi og höfðum við bækistöðvar í svefnskálum Kröfluvirkjunnar. Hef trúlega tekið bókina með mér til að glíma við á kvöldin þegar lítið var við að vera. Og ég las og las, pældi og pældi en kláraði hana ekki. Hef oft hugsað um að taka upp þráðinn þar sem ég skildi við hann uppi við Kröflu því ég held ég muni ótrúlega mikið úr bókinni. Og afhverju skyldi það vera. Jú, ég þurfti nefnilega að endurlesa marga kaflana þar sem ég ruglaðist algjörlega í nafnahefðinni og vissi ekki hver var hvað. Og þá var ekkert annað að gera en fletta til baka og lesa upp á nýtt.

Ég kíkti í rússnesku hilluna mína. Þar eru nokkrar bækur eftir Dostojevskí og sumar enn með miða á þeirri blaðsíðu þar sem ég skildi við þær. Í V. kafla fjórðu bókar Glæps og refsingar er bréf utan af Siríussúkkulaði, í VIII. kafla annars hluta Fávitans er Lottómiði fyrir miðvikudaginn 9. nóvember 1994. Vinningstölurnar skrifaðar á miðann og sennilega hef ég ekkert unnið. Í 23. kafla Meistarans og Margarítu eftir Búlgakof er bara venjulegur gulur miði. Þessar og fleiri bækur voru mér allar ánægjuleg lesning sem ég þó af einhverjum ástæðum kláraði ekki. Núna hef ég tekið mig á og klára þær bækur sem eiga það skilið. Og ég þarf augljóslega að fara bókahillurnar mínar og tína fram ókláruðu bækurnar.

Nafnahefðina rússnesku útskýrði þýðandinn Ingibjörg Haraldsdóttir svo í þýðingu sinni á Karamazov bræðrunum. Tók hún Harald heitinn Blöndal sem dæmi, en hann bar ættarnafn en var svo auðvitað Lárusson og líka kallaður Halli af vinum sínum. Í Rússlandi hefðu öll þessi nöfn verið notuð, hvert og eitt þeirra á stundum eitt og sér, en stundum fornafn og föðurnafn saman o.s.frv. Allt eftir því hver ávarpaði hann eða um hann ræddi. Þessi nafnahefð gerir því óvanan lesanda rússneskra bókmennta mátulega ruglaðan. En, útskýring Ingibjargar hjálpar mikið.

BÓKADÓMUR
Mæli með því að allir lesi Dostojevskí, en það liggur ekkert á. Hef ekki séð neina umfjöllun um það til hvaða markhóps hann þóttist höfða. Fimm gúrkur fær Ingibjörg Haralds fyrir þýðingar sínar.

E.s. Að tilefni gefnu tek ég það fram að ég tók ekki myndina af honum Fjodor hér til hliðar og ber því enga ábyrgð á því að hann horfir ekki í myndavélina. Skil bara hreinlega ekki í manninum! Hefur trúlega fengið tvo ljósmyndara til að gera tilboð í mynd af sér og tekið tilboðinu frá þeim sem var ódýrari, þ.e. í hvers linsu sem hann horfði ekki.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home