fimmtudagur, desember 08, 2005

Jesús minn Lennon

Dag þennan fyrir 25 árum var John Lennon skotinn til bana á götu úti í New York. Og dag þennan fyrir um það bil 2060 árum var María móðir Jesúsar getin af heilögum anda. Segir sagan.

Tölum fyrst um púllann Lennon. Hann var víst ólíkindatól, vondur við eldri son sinn, elskaði konuna sína (þegar hann var ekki að dunda við aðrar), en umfram allt og það sem okkur skiptir mestu: Frábær tónlistarmaður og leiðtogi. Þennan dag fyrir 25 árum var ég nýfluttur á Brávallagötuna í Vesturbæ Reykjavíkur. Ellefu ára. Eins og minningin vill hafa það var ég bara inni í stofu og mamma þar líka og opið fyrir útvarpið. Og þá kom fréttin. Mamma var og er Lennonisti og því var þetta henni sjokk eins og ótal fleirum. Þarna á stofugólfinu á Brávallagötunni man ég fyrst eftir Lennon.

Á sama tíma í sjálfri morðborginni átti mín heittelskaða heima og ekki nema níu ára. 1980. Hildur man þetta vel: Allir grétu og mamma og pabbi. Enda mikil sensjasjón í borginni þá. Hvort það var nokkrum dögum áður eða eftir, þá kom Dobble Fantasy út og sú plata fékk engar smá viðtökur. Og sem betur fer ekki bara vegna þess að kallinn var drepinn, heldur vegna þess að platan er og verður eitt stórkostlegt meistaraverk í lagasmíð, útsetningum og upptökustjórn. Mér hefur allltaf fundist þessi plata vera ákveðið tribjút Lennons til sjötta áratugarins; einfaldar útsetningar og tærleiki. Til dæmis finnst mér trommuleikurinn alveg með eindæmum sparsamur og flottur.

... ... ...

Og nú að Mæju. Á Ítalíu markar 8. desember upphaf jólanna. Þennan dag árið 1998 var ég staddur á torgi í Róm þar sem stendur súla ein ílöng upp og þar efst líkneski Maríu guðsmóður. Páll páfi mætti og vottaði hinni óspjölluðu móður virðingu sína. Voru þar auk okkar mættir mætir menn eins og klæðskerinn Valentínó og leynilögregla Vatíkansins.

Maður getur kannski unað Guði það að stinga undan smiðnum Jósefi, en að leggjast líka með móður Maríu og eiga hana með henni, það hlýtur að teljast til fjöllyndis. Og er þá Guð ekki að geta dóttur sinni Maríu barn þegar hann fyllir hana af heilögum anda sínum og gerir henni barn. Sifjaspell? Oh, nei, auðvitað, hann er þríeinn, eða hún, eða þau, eða ... Er þetta ekki bara rugl?

Mér var ungum mjög uppsigað við trúna; man eftir mér yngri en tíu ára einsetjandi mér það að afsanna þessa vitleysu fyrir fólki þegar ég yrði stór. En, ég hef fyrir löngu komst að því að það er ekkert við trúna að sakast heldur kenninguna og kredduna sem stundum er eitt og hið sama.

Kristur og Lennon. Í margra augum einn og sami maðurinn. Þurftu alltént báðir að þola erfiða barnæsku, voru baldnir, foreldrar þeirra héldu framhjá, voru byltingarmenn, o.s.frv. Og hvorugur hafði bílpróf. Ég veit ekki hvað ég er alltaf að daðra við katólskuna; hún er fáránlega opinberandi um fordild sína þegar maður nennir að pæla í því. Lennon var gallaður, en fjandi góður tónlistarmaður. Og tónlistin lifir.

AÐ GEFNU TILEFNI tók Hildur ekki þessa mynd af Jóni. En, hún er góð samt. Johnny boy í NY-bolnum sínum. Svona var hann. Þeim sem vilja lesa meira um Maríu og Jósef og jólin á Ítalíu er bent á Rómarvefinn, Romarvefurinn.is

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home