þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Vindmillur

Ég er stundum eins og Kíkóti að berjast við vindmillur, nema hvað í mínu tilfelli eru vindmillurnar raunverulegir risar (það fannst Don-inum reyndar líka). Risarnir mínir eru símafélög. Annað segir mig skulda því, hjá hinu á ég inni peninga.

Það er erfitt að eiga við risa, sérstaklega ef hann heitir Síminn og segir mig skulda honum pening þótt ég hafi síðustu tvö árin átt öll mín símaviðskipti við Og Vodafone. Hins vegar á ég inni peninga hjá Og Vodafone, eða öllu heldur Dagbrún sem á líka 365 prentmiðla og því Dagblaðið sem ég hef skrifað nokkra pistla fyrir. Nokkuð er um liðið síðan ég sendi inn reikning og mig farið að lengja eftir greiðslu. Hringdi því í 365 og bað um bókhaldið. Símamærin hefur augljóslega ratað á réttan staf í símaskránni sinni því ég fékk samband við Birtu - blaðið altso. Þar sagði mér ein hjálpleg kona að reynandi væri að hafa samband við Og Vodafone því fréttst hefði að þar á bæ væri haldið utan um reikninga þeirra félaga sem til fyrirtækisins heyra.

Jú, ég hringdi og þar gat önnur hjálpleg stúlka upplýst mig (hún sagðist vera nýbyrjuð og það e.t.v. skýringin á hjálpseminni) eftir stundarráðfæringar að erindi mitt ætti ég að reka við hana Láru gjaldkera á 365 ljósvakamiðlum(!). Nema hvað, Lára svaraði og var hin liðlegasta. Og auðvitað kom það í ljós að eitthvert klikk var á bókfærslunni þannig að eldri reikningur frá mér var bókaður sem ofgreiddur þannig að þessi var settur upp í meinta „skuld“ mína. Lára mín sagðist ætla að laga þetta og leggja inn á mig. Laggó.

(Það er svona pínu tilgerðarlegt svindl að vera vitna í bókmenntir sem maður hefur ekki einu sinni lesið, eins og ég geri hér að ofan, en það hefur lengi verið á dagskránni að lesa um ævintýri riddarans sjónumhrygga. Sem barn eða unglingur fylgdist ég með vönduðum framhaldsteiknimyndaflokki um Kíkóta sem gaf manni ákveðna tilfinningu fyrir sögunni. Hlakka mjög til að lesa þýðingu Guðbergs á Cervantes).

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home