föstudagur, janúar 20, 2006

Þorri

Þorri er mættur, bankaði upp á í morgun á bóndadegi og dvelur með okkur framundir konudag rétt eftir miðjan febrúar þegar blessuð góa tekur við. Hann er sterklegur að sjá, skeggið hrýmað og augnabrúnirnar líkastar breiðu bíslagi yfir bláköldum augunum.

Um það bil sem landinn er að kyngja síðasta jólabitanum tekur þorrinn við og hákarlsbitar elta lamb, rjúpu og svín niður í maga þar sem þau hitta fyrir jólaölið og ... splass, brennivínið brunar á eftir. Hrútspungar og kindakjálkar fylla nú þau borð sem rétt áður svignuðu undan kalkún, rauðu káli, kartöflum, laufuðu brauði og ég veit ekki hverju og ekki endilega þessu öllu saman.

Er ekki tími til kominn að við persónugerum hann Þorra, klæðum hann upp og látum hann færa fullvöxnum kvæntum karlmönnum eitthvað þjóðlegt og gott í skóinn eða aðra skálmina aðfararnótt bóndadags, t.d. Brennivín og bjór, hrútspunga og magála. Þetta ætti að vera eitthvað fyrir verslunarmenn að taka upp og prómótera. Engin helvítis blóm fyrir karlmenn, enda hávetur og hreinlega fáránlegt að vera gefa sumarblóm þegar eini gróðurinn sem karlmanni kemur í hug er frostrósir á rúðunum eða góð tóbakstugga í pípu. Heill þér Þorri.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home