föstudagur, janúar 27, 2006

Amadeus

Johannes Chrysostomus Wolfgangus Theophilus Mozart fæddist þennan dag í borginni Salzburg í Austurríki fyrir réttum 250 árum.

Fæðingardagur Mozarts er n.t.t. 27. janúar 1756, en hann lést í Vínarborg 5. desember 1791 tæplega 36 ára að aldri.


Ég má til með að minnast 250 ára afmælis Wolfgangs Amadeusar Mozarts hér á Gúrkunni. Sem betur fer er ég alinn upp við að hlusta á klassíska tónlist og í því uppeldi var Mozart skipað í sérstakt öndvegi. Þarf ekki að fjölyrða um fegurðina í verkum Mozarts en þau eru líka svo aðgengileg öllum kynslóðum; börnin syngja um hann Tuma sem fer snemma á fætur að sitja yfir skjátum og þylja svo upp stafina með hjálp melódíunnar hans Mozarts. Mozart er líka með okkur alla daga: Sem undirspil í sjónvarpi, sem hringitónn í símum, sem súkkulaðikúlur, sem hugbúnaður, sem ... ímynd ómengaðrar snilligáfu.

Mozart er minn maður og ekki þótti mér það leðinlegt þegar myndin góða Amadeus eftir Mílos Forman kom út og fólk fór að segja við mig hvað ég líktist mikið leikaranum Tom Hulce í aðalhlutverkinu. Ég sá myndina úti í Bournemouth áður en hún kom hingað (þetta var á þeim tíma þegar það tók minnst eitt ár fyrir myndir að skila sér upp á Klakann) og það verður að segjast eins og er að mér brá nokkuð þegar ég nánast sá sjálfan mig í sumum atriðum myndarinnar. Það ber þó að taka fram að þarna var ég með nokkuð sítt og aflitað hár(!). Mikil synd hvað lítið hefur sést til þessa fína leikara Tom Hulce; hann er kannski ekki nógu jollyhollywoodvænn.

Kvikmyndin Amadeus er gerð eftir leikriti Peters Shaffer sem Þjóðleikhúsið setti upp á sínum tíma með Sigga Sigurjóns í hlutverki snillingsins barnalega sem trúlega var með e.k. tourette sem gerði það að verkum að hann gat verið ansi orðljótur. En líka fyndinn og því sönnunar eru sendibréf hans sem varðveist hafa. Ég sá leikritið á sínum tíma og hafði mikið gaman af. Ætli einhverju leikhúsanna hafi dottið í hug að setja verkið upp á árinu í tilefni afmælisins? Til hamingju með afmælið Mósí.

AÐ GEFNU TILEFNI er það tekið fram að myndin er ekki af undirrituðum heldur leikaranum Tom Hulce frá Detroit í hlutverki ótuktarinnar Amadeusar frá Salzburg.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home