föstudagur, febrúar 03, 2006

Nýr ritstjóri Fréttablaðsins

Ég er áhugamaður um fjölmiðla. Ég les blöðin þegar ég get; stundum rétt einstaka fyrirsögn og útdrátt, stundum hvern einasta dálksentimetra. Ég les fréttir og umfjallanir vegna efnis þeirra, en pæli líka í því hvernig frá er sagt, í stíl og svo náttúrlega í því sem ósagt er látið og hugsanlegum ástæðum fyrir því. Fjölmiðlar eru máttugir í samfélaginu og þann mátt skyldi ekki vanmeta.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra úr liði sjálfstæðismanna, hefur verið ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins, útbreiddasta dagblaðs á Íslandi. Mér líst illa á þessa ráðningu og ætla að reifa hér nokkrar ástæður fyrir því.

Fyrir það fyrsta þá er Þorsteinn fulltrúi kerfisins: Nú síðast sendiherra, þar á undan ráðherra og enn fyrr forsvarsmaður Vinnuveitendasambandsins. Er þetta kvalítetið sem dagblað á borð við Fréttablaðið leitar eftir í ritstjóra? Ég hefði haldið ekki. Ég hefði haldið að Fréttablaðið vildi frekar ferskari, róttækari og kannski yngri ritsjóra við hlið hins RÚV-uppalda og hálfsjötuga Kára Jónassonar, en ekki mann sem í áratugi hefur verið fulltrúi ákveðinna afla í þjóðfélaginu.

Í öðru lagi á Fréttablaðið að vera í stjórnarandstöðu. Alltaf. Það er feykinóg að hafa hér eitt feitt blað sem er í besta falli gagnrýninn vinur Sjálfstæðisflokksins en í versta falli málpípa hans. En, það hefur verið augljóst markmið Fréttablaðsins um nokkurt skeið að keppa við Morgunblaðið í þykkt, efni og raunverulegum lestri og það virðist ætla að leiða til þess að stjórnendur blaðsins telji að það þurfi að láta af skoðunum og gagnrýni á valdhafa.

Í þriðja lagi: Hvernig verður ráðning Þorsteins túlkuð? Eflaust á ýmsa vegu, en eitt þykir mér liggja í augum uppi: Þorsteini er ætlað að auka nokkrum tonnum við vigt Fréttablaðsins, gera ballest þess stöðugri á siglingunni fram úr Morgunblaðinu. Nú á að friðmælast við Flokkinn, LÍÚ, VSÍ og öll þau hin hagsmunasamtök beturmegandi Íslendinga. Nú skal enga styggja en upp það tyggja sem betur hjómar. Og hvernig ber manni svo að túlka þessar ráðningar á kerfisköllum til fyrirtækja Baugsins: Ari Edwald, Þorsteinn Pálsson og þar áður Hreinn Loftsson og Skarphéðinn Berg Steinarsson?

Í fjórða lagi er eitthvað skrýtið hvernig ráðning Þorsteins ber að. Kári Jónasson segist ekkert hafa vitað um málið og satt best að segja lítur hans staða innan blaðsins ekkert vel út. Hver verður t.d. verkaskiptingin?

Í fimmta lagi: Þorsteinn hefur vissulega reynslu af ritstjórn fjölmiðla, en hann var samt „óskýr minning í blaðamennsku þegar ég hóf störf fyrir aldarfjórðungi“, skrifar Egill Helgason blaðamaður.

Í sjötta lagi: Maður veit svo sem ekki við hverju má búast af Þorsteini. En, eitt er víst og það er að nú getur Fréttablaðið lagt 110% faglegt mat á dómsmál eins og Baugsmálið hafandi ritstjóra sem er löglærður fyrrverandi dómsmálaráðherra og í kaupbæti fyrrverandi forsætisráðherra og forsvarsmaður félags atvinnurekenda eins og Baugs. Maðurinn hefur tveggja heima sýn og ætti því að geta stýrt fullkomlega hlutlægri og málefnalegri umfjöllun um þetta flókna mál.

Þetta er mín skoðun og getur svo sannarlega verið kolvitlaus. En, sem áhugamanni um fjölmiðla í þessu landi, jöfnuð og réttar upplýsingar get ég ekki annað en haft áhyggjur af því að sterkasta blaði landsins muni fara aftur. En, blöð eru sjaldnast skrifuð af ritstjórum og í hópi blaðamanna Fréttablaðsins er margt ungt og dugandi fólk, þar á meðal færar stelpur.

MYNDSKÝRING Meðfylgjandi mynd er úr árumyndasafni Bubba Morthens. Eins og sjá má er ára Þorsteins tvískipt: Þorteinn er bleikur eins og Bónusgrísinn sem er hryggjarstykkið í Baugsveldinu, eiganda Dagsbrúnar sem er eigandi 365 miðla, eiganda Fréttablaðsins. Og Þorsteinn er blár eins og Sjálfstæðisflokkurinn, já, og líka eins og Fréttablaðið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home