miðvikudagur, júlí 12, 2006

Instrú - mental

Vinur minn liggur lasinn heima hjá sér og svarar ekki í síma. Timburmenn eða berklar, skiptir ekki máli; hann er ekki í spjallhæfu ástandi. Sendi honum SMS gegnum netið (sem er einstaklega þægilegt fyrir mann eins og mig sem var seinn til í GSM væðingunni og hefur hreinlega ekki nennt að koma sér upp SMS-þumli).

Nema hvað, nokkur skeyti fara á milli okkar um tónlist. Ég segi honum að ég sé að hlusta á Blood on the tracks með Dylan, disk sem sjálfur hann gaf mér, en vinur minn þessi hefur fyrir sið að eiga á lager nokkur eintök af sinni eftirlætis tónlist að gefa þurfandi og illa upplýstu fólki.

Ég segi honum, á skeytamáli, að ég sé ekki alveg að ná þessari plötu Dylans og á þá við að mér finnist ekkert lag sérstaklega grípandi. Hann segir mig hafa steinhjarta og spyr hvort mér virkilega finnist ekki eftirsjáin í Simple twist of fate vera einstök. Hum, hugsa ég og hætti öllum skeytasendingum: „Ég var bara að hlusta á tónlistina“. Er þá búinn að gleyma því að þetta Dylan, Bob Dylan: Textinn og allt það.

Eins og ég hef nú gaman af góðum texta þá hefur það aldrei verið alveg librettóið sem ég fíla í tónlist, heldur tónlistin sjálf. Dæmi. Ég er gamall Pink Floyd aðdándi og þótt Waters liggi venjulega mikið á hjarta þá kann ég ekki að fara með nema einstaka viðlag úr tónverkum Floydsins. Gæti hins vegar sungið sumar gítarlínur Gilmours frá upphafi til enda.

Hef lengi öfundað fólk af því að yfirleitt heyra, skilja og kunna lagatexta. Ég heyri bara eitthvað allt annað. Ég hlýt því að vera svona instrú - mental.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home