fimmtudagur, júlí 13, 2006

TRAMPÓLÍN - smásaga - II. hluti

„Nei, það kemur ekki til mála! Og við ræðum þetta ekki meira!“

Hún snarhætti að velta matarleyfum af diski yfir í ruslapoka, skipti litum og snaraði sér upp í snaggaralega flugvélina. Kom sér fyrir í sætinu, ræsti hreyflana og keyrði af stað upp, upp í loftin blá. Innan skamms var skotmarkið í sigtinu. „Ég leyfi honum að koma glasinu fyrir í skápnum, svo læt ég til skarar skríða.“ Hún var eina konan sem hafði fengið inngöngu í Kamikaze sjálfsmorðssveit Japana. Og hér var hún komin á sinni fljúgandi sprengju að eyða hernaðarlega mikilvægu mann-virki. Gaf allt í botn og spling, splang, splong.

Hakkið flaug í fallegri parabólu yfir eldhúsið þvert og endilangt og endaði á elhússkápnum sem maður hennar var nýbúinn að loka - fyrir stundu, því hann var farinn úr eldhúsinu. Illt að treysta á japanskar seinnastríðssjálfsmorðsvélar til gagnárása. Hún lagði frá sér disk og gaffal og úrklæddist japanska gírinu. Og elti hann fram í stofu. Hér duga ekki heldur japanskar hækjur.

Strunsaði á eftir honum en hægði á sér á miðri leið, andaði djúpt og einsetti sér að láta ekki helvítis kallinn koma sér úr jafnvægi. Lágflug þaðan af inn í stofu.

Hún var búin að endurheimta sinn rétta litaraft en hann virtist bara verða rauðari og rauðari. Nei, þetta var teppið sem hún var að horfa á. „Líttu upp kona, réttu úr þér,“ hugsaði hún. Hann var sestur í sófann, fætur uppi á sófaborði, blað í kjöltu og augun á sjónvarpinu. Þóttist ekki taka eftir aðflugi eiginkonu sinnar.

Mjúk lending í hinu horni sófans. Á skjánum grannvaxinn karlmaður milli fertugs og fimmtugs í teinóttum jakkafötum með græna þverslaufu. Flugturninn kallaði: „Tækla þetta nú, frú!“ En áður en hún kom upp orði tók hann það sama af henni.

„Þessi er hoppari,“ sagði hann. Hún hváði. „Þau segja í ráðuneytinu að hann sé með risatrampólín í garðinum og hoppi úr sér streituna. Svo borðar hann víst ekki heitan mat. Ekki einu sinni kaldan eldaðan mat. Bara hráan mat .“ Þetta sagði hann án þess að horfa á hana frá hinum enda sófans, eins og hann væri að tala við sjálfan sig eða slaufumanninn sem var í viðtali í sjónvarpsfréttum. Og já, henni fannst hann svolítið fölur. Rautt bindi myndi gera meira fyrir hann.

Hún tók á sig rögg en passaði hafa ekki augun af sjónvarpinu. „Talandi um trampólín, ég ætla að fara í Bykó á morgun og kaupa trampólín handa krökkunum.“ Engin viðbrögð úr hinu horninu. „Fínt,“ hugsaði hún, „þá er þetta útrætt.“

Slaufumaðurinn úr ráðuneytinu og undirtyllan hans voru nú báðir staðnir upp og farnir að hoppa ofsakátir og í miklu stuði. Annar á trampólíni, hinn á stofusófanum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home