fimmtudagur, október 12, 2006

It was twenty years ago today ...

Fyrstu dagar Stöðvar tvö í loftinu gengu brösulega, margir héldu að innfluttur indverskur tæknimaður væri sérstakt útspil Jóns Óttars til höfuðs ríkisbákninu.

Bandaríkjaforseti og Sovétformaður funda í Reykjavík; hús eitt út við sjó sem helst var þekkt af reimleikum öðlaðist nýja merkingu meðal þjóðar og heims svo að nú er vart hægt að ganga um og við Hlemmtorg nema rekast á villuráfandi túrhesta leitandi að „Hofdi“.

Var á mínu öðru ári í MR; heimastofan í Þrúðvangi, fallegu húsi sem var eitt af nokkrum sem Einar Ben gisti um ævina - Höfði þar með talinn.

Var í tökum fyrir sjónvarpsmynd með forvarnarþema sem hét „Ekki ég, kannski þú“ og skartaði þáverandi og fyrrverandi nemum úr Hagaskóla og núverandi stórleikurum og stoðum og styttum þjóðarinnar.

Fékk bílprófið á afmælisdaginn og keypti mér af því tilefni einn forláta Trabant Deluxe Station, brúnan að lit beint úr kassanum. Gekk í félag Trabanteigenda, Skynsemin ræður, sem síðan lognaðist útaf eins og Austurþýska alþýðulýðveldið og skynsemi mín sjálf.

Þetta var fyrir tuttugu árum upp á dag, ég segi það víst satt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home