mánudagur, október 23, 2006

Lag úr útvarpsklukku

Tók fram gamlan hljómdisk úr safninu, einn af þeim fyrstu sem ég eignaðist, og rifjaðist þá upp fyrir mér hvar ég heyrði þessa tónlist fyrst sem diskurinn hefur að geyma.

(Sem minnir mig líka á kvöldrölt á milli bara með Jóa Nizza á fyrstu árum CD-diskanna. Vorum að færa okkur á milli staða; frá Hressó upp á Blúsbar. Duttum þá í pælingar um hvað þetta tiltölulega nýja fyrirbæri ætti að nú að heita því orðið „diskur“ fannst okkur alveg ómögulegt. Ég mælti með því að þetta yrði kallað skífa þar sem gömlu vínilplöturnar voru stundum kallaðar skífur og svo minntu þessir CD-diskar mig líka á slípirokksskífurnar sem ég notaði í byggingarvinnunni þá. Man ekki hvað Jói lagði til.)

Nema hvað, skífa þessi er Autumn eftir George Winston og flokkast víst undir nýaldartónlist. Ekki svona nýaldarkukls lyftutónlist heldur meira svona minimal. Falleg tónlist og seyðandi. Þetta var í Ohio veturinn 1987-8.

Við Francesco vorum AFS-skiptinemar og skólafélagar. Á tímabili þennan vetur gisti ég oft hjá honum um helgar. Hann bjó hjá huggulegri fjölskyldu í hinum enda bæjarins. Deildum áhuga á kvikmyndum og kvikmyndagerð. Fjölskylda hans átti forláta VHS-upptökuvél sem við fengum að nota í ýmsa tilraunastarfsemi. Við vorum oft að fram á kvöld og því varð það ósjáldan úr að ég fékk að gista.

Hann hafði rúmgott herbergi til afnota og aukarúm. Og þegar við vöknuðum á sunnudagsmorgnum kallaðir í pönnukökur og síróp þá var það útvarpsklukkan hans Francesco sem vakti okkur fyrst og alltaf þessi sami nýaldarþáttur á einni stöðinni sem spilaði þessa fallegu tónlist sem féll mér svona vel í geð.

Vildi bara deila þessu með ykkur. Afsakið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home