mánudagur, desember 12, 2005

Alfreð afi

Móðurafi minn Alfreð Gíslason hefði orðið 100 ára í dag, 12. desember, hefði hann lifað. Afi dó hins vegar 13. október árið 1990 rétt tæplega 85 ára.

Afi var um margt merkilegur maður og sérstaklega vegna þess að hann var það sem í dag er kallað self made man. Við fæðingu hans voru uppi þær aðstæður að ekki mátti fréttast um hver væri faðir hans og móðir hans Sigríður gat ekki annast hann. Árið var 1905. Litla stráknum var því komið í fóstur. Það var gæfa hans að það fólk reyndist honum afskaplega vel, en að öðru leyti varð hann sinnar eigin gæfu smiður.

Afi gekk menntaveginn alla leið upp í Háskóla Íslands þar sem hann lagði stund á læknisfræði, en sótti svo sérfræðimenntun í tauga- og geðlækningum til Danmerkur. Starfaði sem læknir í Reykjavík frá 1936, en fór svo að láta taka til sín í þjóðmálaumræðu. Kosinn í bæjar- og síðar borgarstjórn Reykjavíkur frá 1954 til 1966. Á þing var hann svo kosinn fyrir Alþýðubandalagið 1956 og sat þar þangað til 1967 þegar hann hætti og sagði skilið við bandalagið.

Afi gekk að eiga ömmu mína Sigríði Þorsteinsdóttur árið 1932 í Kaupmannahöfn, en henni kynntist ég aldrei þar sem hún dó skömmu áður en ég fæddist eins og raunar föðuramma mín líka. Aflreð og Sigríður eignuðust þrjú börn og bjuggu þeim fallegt heimili í Barmahlíðinni í Reykjavík. Þar bjó ég í kjallaranum sem barn og gekk í Austurbæjarskóla eins og mamma hafði gert. Vorum við afi mikið í samvistum og af því getur einn lítill drengur ekki haft nema mjög gott.

Á vef Alþingis má lesa meira um afa.

AÐ GEFNU TILEFNI er það sjálfur ég sem skrýðist pípuhatti afa míns í forgrunni myndarinnar, en hatt þennan notaði afi á frímúrarafundum. Ég á ekki hattinn núna en kjólfötin hinsvegar sem honum tilheyrðu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home