föstudagur, desember 09, 2005

Foreldrar

Foreldrar eru vandamál. Fyrst koma þeir manni í heiminn manni gjörsamlega forspurðum. Svo er eins og maður hafi þröngvað sér upp á þá. Og þannig er það svona fram að tvítugu. Maður settur á hinar ýmsu geymslustaði: Dagmamma, leikskóli, skóli, sumarnámskeið, gagnfræðaskóli, menntaskóli, háskóli. Maður er vandamál og á hátíðum: Unglingavandamál.

Svo verður maður fullorðinn og áttar sig á því að þetta fullorðna fólk er svo fjarri því að vera fullkomið. Og maðurinn ég, forsniðinn af foreldrunum; fullkomlega ófullkominn og alltaf barn foreldra minna.

Svo um síðir verður þetta fólk gamalt. Og eldgamalt og getur ekki einu sinni drepist nógu snemma til að langplöguð börnin njóti nú einhvers í arfi. Nei, nei, arfurinn kemur náttúrlega þegar maður þarf EKKI á honum að halda. Kemur nákvæmlega þegar maður er sjálfur orðinnn gamall og fyrir löngu orðinn foreldravandamál.

AÐ GEFNU TILEFNI er það tekið fram að maðurinn á myndinni hefur ekki gert mér neitt, enda alls óskyldur mér og á ekki neitt heldur. Hann býr á Filipseyjum og hefur það víst skítsæmilegt. Blessaður maðurinn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home